Fréttir
  • Frá úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
  • Frá úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála
  • Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra kynnir verkefni í Landmannalaugum
  • Helga A. Erlingsdóttir verkefnisstjóri kynnir verkefni við Goðafoss
  • Sigurður Sigurðarson Vegagerðinni ræðir við fjölmiðla
  • Sigurður Sigurðarson Vegagerðinni ræðir við fjölmiðla

Vegagerðin þróar viðvörunarkerfi í Reynisfjöru og Kirkjufjöru

Vegagerðin og Ferðamálastofa semja um þróun á ölduspákerfi

15.3.2017

Við úthlutun úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár kom fram hjá ferðamálaráðherra að hún hefði falið Ferðamálastofu að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun á ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru við Vík í Mýrdal en veittur er 20 milljóna króna styrkur til verksins. Ætlunin er að geta varað ferðamenn við hættulegum aðstæðum vegna öldunnar.

Verkið er hugmynd Sigurðar Sigurðarsonar verkfræðings á siglingasviði Vegagerðarinnar en það tengist ölduspákerfinu Veður og sjólag sem Vegagerðin rekur. Sagt var frá þessari hugmynd á heimasíðu Vegagerðarinnar í janúar sl.

Ekki er þörf að minna á hættuna sem skapast í briminu í þessum fjörum sem leitt hefur til banaslysa. Eðlilega er það stórfenglegt brimið sem dregur fólk að ströndinni, það sjónarspil sem á sér stað þegar þung alda brotnar á strönd og klettum. Hættan af briminu fer saman við sjónarspilið, því meira og þyngra sem brimið er því meira er aðdráttaraflið.

Því getur verið æskilegt að koma upp viðvörunarkerfi þar sem varað er við hættulegum aðstæðum, kerfi sem getur metið hættustigið hverju sinni. Það þarf að finna út við hvaða aðstæður brim og öldugangur er hættulegur og við hvaða aðstæður það er síður hættulegt. Ölduhæð og öldulengd ráða mestu um það hversu hættulegt brimið er en sjávarstaða hefur líka áhrif. Til þess að ná því að spá fyrir um það hvort aðstæður verði hættulegar þarf að reikna ölduna upp að ströndinni.  Síðan eru ölduhæð og öldulengd skoðuð og borin saman við ákveðin áhættumörk sem eftir er að þróa.

Hægt er að hugsa sér mismunandi not af slíku kerfi.  Í fyrsta lagi má hugsa sér að viðvörunin sé eingöngu fyrir löggæslu eða aðra sem hafa eftirlitsskyldu í fjörunum.  Þannig vissu þessir aðilar með dags eða nokkurra daga fyrirvara að aðgæslu verði þörf.  Í öðru lagi má hugsa sér að einhverskonar rauð ljós blikki á stöðum þar sem ferðamenn koma að þessum fjörum þegar aðstæður eru hættulegar.  Ef að það gengur upp að skilgreina mismunandi stig hættu má hugsa sér að við ákveðnar aðstæður blikki eitt rautt ljós en við aðrar fleiri rauð ljós. Þá er hægt að hugsa sér annars konar fyrirkomulag á viðvörunum.

Nú verður kerfið sem sagt þróað og komið á legg en útfærsla á því hvernig viðvörunum verður komið til ferðamanna er einnig eftir. 

Úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða var úthlutað 610 milljónum til 58 verkefna en á blaðamannafundi í morgun voru tvö verkefnanna kynnt, verkefni í Landmannalaugum og við Goðafoss. Fjölmiðlar sýndu verkefninu í Reynisfjöru og Kirkjufjöru mikinn áhuga enda sýnir náttúruna þarf afl sitt og slysin sýna hversu hættuleg aldan er í þessum fjörum.