Stefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggismálum

Vegagerðin hefur ákveðið að fylgja eftir mótaðri stefnu í umferðaröryggismálum sem miði að öruggri umferð á þjóðvegum landsins fyrir alla vegfarendur. Við stefnumótun sína tekur Vegagerðin mið af því að Ísland verði áfram í hópi hinna allra bestu þjóða á sviði  umferðaröryggis. Vegagerðin mun vinna að því bæði ein og í samvinnu við aðra að þau markmið náist sem Alþingi ákveður hverju sinni og fram koma í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er samstarfsverkefni samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra.

Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda.

Frá árinu 2005 hefur umferðaröryggisáætlun verið hluti af samgönguáætlun. Fyrsta fjögurra ára samgönguáætlunin sem innihélt umferðaröryggisáætlun var áætlunin 2005-2008 en fyrsta tólf ára umferðaröryggisáætlunin er áætlunin 2011-2022.

Meginmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2022 eru eftirfarandi:

 • Að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum árið 2022.
 • Að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra minnki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2022 (miðað við tímabilið 2006-2010)

Sett hafa verið fram ellefu undirmarkmið.

Undirmarkmið umferðaröryggisáætlunar 2011-2022 eru:

 • Banaslysum og alvarlegum slysum á börnum, 14 ára og yngri, skal útrýmt fyrir árið 2022.
 • Banaslysum sem rekja má til vanrækslu á notkun öryggisbelta verði útrýmt.
 • Slysum vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs fækki árlega um 5%.
 • Meðalökuhraði að sumarlagi á þjóðvegum þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. haldist innan við 95 km/klst.
 • Aðild ungra ökumanna, 17-20 ára, að umferðarslysum minnki árlega um 5%.
 • Alvarlega slösuðum og látnum í bifhjólaslysum fækki árlega um 5%.
 • Slysum á óvörðum vegfarendum (gangandi og hjólandi) fækki árlega um 5%.
 • Slösuðum útlendingum fækki árlega um 5%.
 • Slysum og óhöppum vegna útafaksturs fækki árlega um 5%.
 • Slysum og óhöppum vegna ónógs bils á milli bíla fækki árlega um 5%.
 • Slysum og óhöppum vegna hliðarárekstra fækki árlega um 5%.


Framkvæmdaáætlun í umferðaröryggi.

Unnið verður að  umferðaröryggismálum í samræmi við umferðaröryggisáætlun með það að markmiði að auka öryggi vega, bifreiða og ökumanna.  Vegagerðin ber ábyrgð á úrbótum á vegum og miða helstu verkefni að eyðingu svartbletta og lagfæringum á hættulegum stöðum í vegakerfinu.  Samgöngustofa ber ábyrgð á verkefnum er lúta að mannlegri hegðun og viðmóti og snúa hennar helstu verkefni að áróðri og fræðslu.  Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á umferðareftirliti og helstu verkefni hans eru sérstakt umferðareftirlit ásamt úrvinnslu gagna úr hraðamyndavélum.

Verkefnum sem miða að fækkun slysa í umferðinni hefur verið skipt í eftirfarandi verkefnaflokka:

 1. Vegfarendur
 2. Vegakerfið
 3. Ökutækið
 4. Stefnumótun, rannsóknir og löggjöf

Fyrir utan þau verkefni sem sérstaklega eru tilgreind í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda má segja að nánast öll verkefni Vegagerðarinnar miði að því að auka öryggi vegfarenda á einn eða annan hátt.


Helstu þættir stefnu Vegagerðarinnar í umferðaröryggismálum:

 • Við hönnun, byggingu, viðhald og þjónustu vega mun Vegagerðin hafa öryggi vegfarenda í fyrirrúmi.
 • Vegagerðin mun veita vegfarendum sem bestar upplýsingar um ástand vega og akstursaðstæður og auka þannig umferðaröryggi þeirra.
 • Vegagerðin mun leitast við að merkja vegakerfið fyrir vegfarendur á þann hátt að upplýsingar stuðli að öruggum akstri.
 • Vegagerðin mun vinna að umferðaröryggismálum með öðrum aðilum sem sinna umferðaröryggi til hagsbóta fyrir vegfarendur.
 • Vegagerðin mun reglubundið afla upplýsinga um umferð og slys á vegakerfinu og láta þeim aðilum í té endurgjaldslaust sem vinna að umferðaröryggismálum.
 • Vegagerðin mun vinna að rannsóknum og styrkja aðra aðila til rannsókna á orsökum umferðarslysa og leiðum til úrbóta í umferðaröryggismálum.


Nánari skýringar á stefnu Vegagerðarinnar í umferðaröryggismálum.

Þar eð mikið umferðaröryggi er eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar, er eðlilegt að um það móti hún ákveðna stefnu til lengri tíma. Sú stefnumörkun á þá að hafa áhrif á alla vinnu Vegagerðarinnar þar sem umferðaröryggismál koma við sögu.

 • Í allri starfsemi Vegagerðarinnar þarf sífellt að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á umferðaröryggi. Það getur verið allt frá vali á veglínum og notkun á vegstöðlum, til sumar- og vetrarþjónustu á nýjum og gömlum vegum. Þegar hagsmunir rekast á, svo sem milli kostnaðar, tíma, öryggis eða annarra þátta, er rétt að Vegagerðin láti öryggið ráða við ákvarðanir, eftir því sem gerlegt er.
 • Mikilvægt er að vegfarendur fái sem bestar upplýsingar um akstursskilyrði við upphaf ferðar, ásamt spá um væntanleg akstursskilyrði uns komið er á leiðarenda. Stefnt skal að því að nýta til þess bestu fáanlegu tækni hverju sinni. Betri upplýsingar geta haft áhrif á leiðaval, tímasetningu ferða, aksturslag og fleira, sem aftur getur haft áhrif á umferðaröryggið.
 • Merkingar á yfirborði vega og við vegi, ásamt breytilegum upplýsingum sem birtar eru á töflum og skiltum um veðurfar og fleira, eru mikilsverð öryggisatriði sem í mörgum tilfellum geta komið í veg fyrir slys. Merkingar vegakerfisins eiga að hafa áhrif á akstur vegfarenda þannig að sem minnstar líkur séu á að eitthvað óvænt komi upp á sem geti leitt til slyss.
 • Miklar upplýsingar eru til um slys á vegakerfinu sem tengjast gerð og ástandi þess á mismunandi stöðum. Sem dæmi má taka slys við einbreiðar brýr og svartbletti (staði þar sem slys eru óvenju mörg). Í mörgum tilfellum er unnt að auka öryggi vegfarenda markvisst með réttum aðgerðum og því eðlilegt að ákvarðanir um nýframkvæmdir beinist í auknum mæli til slíkra aðgerða.
 • Allt umferðaröryggisstarf byggist á því að þeir aðilar sem sinna þessum málum vinni saman og tali einum rómi. Aðgerðir þurfa að vera samræmdar til þess að árangur náist. Þess vegna mun Vegagerðin halda áfram að vinna náið með lögreglu, Samgöngustofu, sveitarfélögum og öðrum þeim aðilum sem að umferðaröryggisstarfi koma.
 • Vegagerðin mun halda áfram að vinna sjálf að rannsóknum á umferðaröryggi og einnig í samvinnu við aðra, ásamt því að styrkja aðila til rannsókna. Einnig mun Vegagerðin beita sér fyrir því að samræma og efla rannsóknir í umferðaröryggismálum.

Helstu áhersluatriði Vegagerðarinnar

Þau áhersluatriði, sem verða lögð til grundvallar við að ná fram þeim markmiðum sem sett hafa verið eru:

 • vegagerðarmenn séu til fyrirmyndar í umferðinni
 • öruggara umhverfi vega
 • betri þjónusta
 • öruggari ökuhraði
 • þróun aðferða við öryggisstjórnun vegamannvirkja
 • fækkun svartbletta
 • aukið fjármagn

Endurskoðað í nóvember 2018.