• Umferðarþungi austan Reykjavíkur

Umferð

Skipulagðar umferðartalningar hafa farið fram hjá Vegagerðinni frá árinu 1975. Um tvenns konar talningar er að ræða, þ.e. árstalningar og skynditalningar.

Í fyrrnefnda tilvikinu er talið alla daga ársins en í því síðara er talið í stuttan tíma, oftast í u.þ.b. þrjár vikur. Auðvelt er að reikna ársdagsumferð (ÁDU)(1), sumardagsumferð (SDU)(2 )og vetrardagsumferð (VDU)(3) þegar niðurstöður árstalningar liggja fyrir.

Með samanburði niðurstaðna skynditalningar á ákveðnu tímabili við niðurstöðu árstalningar á vegi með svipaða umferðardreifingu yfir árið má áætla ofangreindar stærðir fyrir veg þar sem skynditalning fer fram.

Þar sem talið er allt árið er um þrenns konar búnað að ræða, þ.e. umferðargreina(4) sem hringt er reglulega í, en þeir skrá mun fleira en umferð, t.d. hraða ökutækja, aðra teljara sem hringt er í (5) og skrá eingöngu umferð. Slíkir teljarar eru t.d. tengdir öllum veðurstöðvum, og að síðustu teljara sem fara þarf út í mörkina til að lesa af.

Fjöldi árstalningarstaða er nú um 280 talningasnið(6) og árlega fer skynditalning fram á 100 – 150 stöðum. Þar sem ekki er talið er umferð reiknuð upp á milli ára með því að nota breytingarhlutfall ársteljara í grennd.

Með þessum umfangsmiklu umferðartalningum hefur Vegagerðinni tekist að safna upplýsingum um þróun umferðar og heildaraksturs á þjóðvegum síðustu áratugi. Vitneskja um umferð er nauðsynleg fyrir mörg verkefni stofnunarinnar.

Hér á eftir eru talin upp helstu verkefni sem byggja að hluta til á umferðartölum:

  • Heildarskipulag vegakerfis og flokkun vega
  • Forgangsröðun verkefna, nýbyggingar og slitlög
  • Geometrisk hönnun vega
  • Burðarþolshönnun
  • Hönnun brúa
  • Mat á umhverfisáhrifum
  • Arðsemireikningar sem m.a. byggja á umferðarspám
  • Slysaathuganir, en upplýsingar um umferð eru m.a. nauðsynlegar til að hægt sé að reikna slysatíðni, þ.e. fjöldi slysa á milljón ekinna km
  • Skipting viðhaldsfjár vegna viðhalds vega og brúa og styrkinga á þeim
  • Skipting vega í þjónustuflokka, vetrarþjónusta og sumarþjónusta.

Í ofangreindum verkefnum er oftast miðað við upplýsingar um ársdagsumferð, ÁDU, og fjölda ekinna km, sumardagsumferð, SDU, og vetrardagsumferð, VDU.

Í verkefnum á umferðarmiklum vegum þarf þó stundum upplýsingar um klukkustundarumferð og 15 mínútna umferð og eru slík gögn aðgengileg alls staðar þar sem eru umferðargreinar eða aðrir teljarar sem hringt er í og ekki eru tengdir veðurstöðvum. Þar sem eru veðurstöðvar eru gögn um 10 mínútna umferð aðgengileg. Umferðarteljarar af eldri gerð skrá hins vegar umferð á sólarhringsfresti og þarf að stilla þá sérstaklega til að þeir skrái oftar.

Í tengslum við stillingu umferðarljósa á gatnamótum eru upplýsingar um 15 mínútna umferð nauðsynlegar og er þeirra aflað með svokallaðri stefnugreiningu en í henni skrá starfsmenn umferð á öllum akreinum inn í gatnamótin á 15 mínútna fresti í 2-3 klukkustundir að morgni og 3-4 klukkustundir síðdegis, oft á föstudegi.
(1) Ársdagsumferð er meðalumferð á dag yfir árið

(2) Sumardagsumferð er meðalumferð á dag mánuðina júní, júlí, ágúst og september

(3) Vetrardagsumferð er meðalumferð á dag mánuðina janúar, febrúar, mars og desember

(4) Umferðargreinar nú rúmlega 30 talsins, flestir á höfuðborgarsvæðinu og á Hringveginum umhverfis landið.

(5) Aðrir teljarar sem hringt er í, og eru ekki tengdir veðurstöðvum, eru innan við 10 talsins.

(6) Talningasnið samanstendur af mengi teljara, sem getur verið frá einu stk. t.d. fyrir tvær akreinar á fáförnum vegum upp í 8 stk. eða einn teljara í hverri akrein á fjölfarnari vegum.