• Grafið í malarhjalla ofan við Sauðárkrók

Jarðfræði

Við undirbúning vegagerðar er oft þörf á nokkuð umfangsmiklum jarðfræðirannsóknum og er það hlutverk jarðfræðideildar Vegagerðarinnar að vinna að stefnumótun, skipulagningu og framkvæmd þeirra rannsókna. Einkum er unnið að námurannsóknum, efnisrannsóknum og jarðvegs- og berggrunnskönnun vegna vinnu við mat á umhverfisáhrifum og fyrir útboðsgögn fyrir vega- og brúargerð en einnig vegna undirbúnings jarðgangagerðar. Þá rekur Vegagerðin rannsóknarstofur þar sem framkvæmdar eru algengustu prófanir á steinefnum til vegagerðar.

Vegagerðin hefur safnað upplýsingum og kortlagt námur á landinu hvort heldur sem er námur sem Vegagerðin hefur notað eða námur annarra. Í framhaldi af þeirri vinnu hefur Vegagerðin hrint af stað átaksverkefni um frágang aflagðra efnistökusvæða sem eru á ábyrgð stofnunarinnar. Það er í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga um að aflögð efnistökusvæði megi ekki standa ófrágengin lengur en í 3 ár.

Ýtarlegar leiðbeiningar um námufrágang eru í ritinu Námur - efnistaka og frágangur. Breytingar hafa m.a. verið gerðar á lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eftir að ritið var gefið út.

Listi yfir námurnar sem Vegagerðin hyggst ganga frá næstu árin er að finna í skýrslunni Langtímaáætlun um námufrágang 2004-2018. Sjá einnig vefflokkinn Efnisnámur.

Gagnabanki, sem geymir niðurstöður helstu steinefnarannsókna sem hafa verið gerðar í tengslum við vegagerð, er starfræktur hjá Vegagerðinni.

Á vefsíðunni Efnisrannsóknir / kröfur og notkun bergs er að finna leiðbeiningar um efnisrannsóknir og efniskröfur auk leiðbeininga um notkun sprengds bergs í vegagerð.