Umferðaröryggismat og –rýni
Umferðaröryggismat og –rýni eru tveir af meginþáttum
umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja.
Markmið með umferðaröryggismati er að tryggja að
umferðaröryggi mismunandi lausna sé metið og borið saman áður en endanlegt val
fer fram. Markmið með umferðaröryggisrýni er að ný umferðarmannvirki verði
eins örugg og hagkvæmt er.
Umferðaröryggismat
Umferðaröryggismat skal fara fram á fyrsta hönnunarstigi,
þ.e. frumdragastigi. Eftirtalin verkefni á sviði vegamannvirkja skulu fara í
umferðaröryggismat:
- Verkefni sem innifela nýja vegi eða verulegar breytingar á núverandi vegarköflum á Evrópuvegum (TERN-vegum).
- Verkefni sem innifela nýbyggingar á öðrum stofnvegum og tengivegum en TERN-vegum.
- Verkefni sem innifela verulegar breytingar, lengri en 2 km, á öðrum stofnvegum og tengivegum en TERN-vegum og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
- Verkefni sem innifela ný eða breytt vegamót á stofnvegum og tengivegum þar sem áætluð mesta umferð á hliðarvegi er 10 bílar á klukkustund eða meiri.
- Verkefni við stofnvegi og tengivegi sem innifela skipulagsáætlanir sem draga úr þjónustustigi á annatíma (e. level of service).
- Verkefni á sviði vegamannvirkja sem sæta mati á umhverfisáhrifum. Niðurstöður umferðaröryggismats skulu liggja til grundvallar vali á legu vegar og fylgja matsskýrslu.
- Verkefni á sviði vegamannvirkja sem eru til umfjöllunar í skipulagsáætlunum og ekki sæta mati á umhverfisáhrifum.
- Smærri verk sem yfirmaður áætlanadeildar telur hafa mikla þýðingu út frá umferðaröryggi.
Leiki vafi á hvort verkefni skuli sæta umferðaröryggismati skal yfirmaður áætlanadeildar leita álits formanns verkefnishóps um umferðaröryggisrýni.
Umferðaröryggisrýni
Umferðaröryggisrýni skal fara fram á eftirtöldum stigum:
1. stig - forhönnun.
2. stig - verkhönnun.
3. stig - rýni
skal fara fram fyrir eða samhliða lokaverkfundi framkvæmdar verks.
4. stig - rýni
skal fara fram samhliða ábyrgðarúttekt í verki.
Eftirtalin verkefni á
sviði vegamannvirkja skulu fara í umferðaröryggisrýni:
- Kaflar á Evrópuvegum (TERN-vegum) og á öðrum stofnvegum og tengivegum lengri en 2 km og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
- Vegamót, áningarstaðir, keðjuplön og biðstöðvar.
- Þar sem tilgangurinn er að auka umferðaröryggi.