Yfir 300 manns starfa hjá Vegagerðinni og störfin eru bæði fjölmörg og fjölbreytt á láði, legi og í lofti. Í Framkvæmdafréttum hafa viðtöl verið birt við starfsfólk og verða þau birt hér og áfram skyggnst inn í hin ólík störf sem unnin eru hjá stofnuninni.
Cecilía Þórðardóttir
Hvað hefur þú unnið lengi hjá Vegagerðinni?
„Ég byrjaði hjá Vegagerðinni í janúar á þessu ári. Það eru mörg spennandi verkefni í gangi hjá Vegagerðinni, sérstaklega í tengslum við Samgöngusáttmálann. Eftir að hafa unnið í 10 ár sem ráðgjafi í samgönguskipulagi á Englandi finnst mér gaman að koma heim og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nú er í gangi á Höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar.
Hvað gerðir þú áður en þú komst til starfa hjá Vegagerðinni?
„Eftir flutning til London tók ég mastersgráðu í samgöngum, sem var kennd sameiginlega við bæði Imperial College og University College London. Að lokinni útskrift hóf ég störf sem ráðgjafi í samgönguskipulagi og vann síðast hjá fyrirtæki sem heitir Velocity Transport Planning áður en ég kom til Vegagerðarinnar. Helstu verkefni fólust í að styðja umsóknir fyrir deiliskipulag. Í því fólst m.a. að útbúa samgöngumat, herma gatnamót og vera í samskiptum við opinbera hagaðila eins og Highways England, Transport for London og sýslur, t.d. Kent og Essex, varðandi innihald samgöngumats og hönnun aðgengis að reit fyrir gangandi, hjólandi og bíla og jafnvel almenningssamgöngur, ásamt mótvægisaðgerðum utan reits.“
Í hverju felst starfið þitt?
„Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hef komið að verkefnum tengdum öryggismálum, umferðarflæði og skipulagi síðan ég byrjaði hjá Vegagerðinni.“
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
„Hefðbundinn vinnudagur felur í sér einhverja fundi tengda verkefnum sem ég er í, þá ýmist innanhúss, með ráðgjöfum eða sveitarfélögum. Ég er mikið að skoða umferðarflæði og ferðatíma, ásamt því að skoða gögn tengd skipulagi á annað hvort nýjum reitum eða breytingum.“
Hvað er skemmtilegast?
„Ég hef endalausan áhuga á öllu tengdu samgöngum og því er erfitt að finna eitthvað eitt sem er skemmtilegast. Mér finnst mjög gaman að geta notað bakgrunn minn í skipulagi til að koma að umsögnum Vegagerðarinnar fyrir skipulagsvinnu á Höfuðborgarsvæðinu. Svo er ég mikið gagnanörd. Mér finnst mjög gaman að lesa í tölulegar upplýsingar sem við höfum og nýta þær til að bæta samgöngur fyrir alla. Ég er mjög spennt fyrir verkefni sem er að fara af stað í september þar sem við komum til með að telja umferð við 16 gatnamót á Sæbraut og Miklubraut/Hringbraut í Reykjavík. Þetta gefur okkur dýrmætar upplýsingar um ferðahegðun fólks á þessum svæðum sem við getum vonandi notað til að bæta ferðatíma allra á næstunni.“
Hvað er mest krefjandi við starfið?
„Eins og staðan er núna er ég enn þá að kynnast bæði samstarfsfélögum hjá Vegagerðinni og okkar kollegum hjá sveitarfélögunum. Þetta er mikilvægur þáttur í starfinu til að tryggja að ég geti komið verkefnum í réttan farveg og að upplýsingar rati til viðeigandi aðila.“
Hvað gerir þú utan vinnu?
„Þá ver ég tíma með manni og barni, ásamt því að hitta vini. Þar sem maðurinn minn er spænskur þá ferðumst við töluvert til norður Spánar og verjum tíma með stórfjölskyldunni og leyfum dóttur okkar að æfa spænskuna á frænkum og frændum.“
Haukur Árni Hermannsson
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur?
Hefðbundinn vinnudagur hjá okkur er varla til. Við reynum að vinna samkvæmt áætlunum hjá okkur en það koma oft breytur inn í dæmið sem setja áætlunina alveg á hvolf. Á vetrum geta vinnudagarnir byrjað upp úr klukkan fimm og staðið langt fram á kvöld þegar veðrið er með vesen.Símtölin verða stundum það mörg á slíkum dögum að ég hef ekki nennt að telja þau og síminn grátbeðið um hleðslu nokkrum sinnum yfir daginn. Sumrin geta líka verið strembin á köflum, pressa við að skipuleggja verkefnin þannig að þau passi saman. Eitt þarf að klárast svo hægt sé að byrja á því næsta o.s.frv.
Hvað er mest krefjandi við starfið?
Að standast og uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til okkar. Bæði kröfur sem Vegagerðin gerir til starfsmanna sinna, til dæmis að fara ekki fram úr fjárveitingum, og líka þær sem almenningur gerir til okkar. Það vilja allir fá þjónustu sem fyrst og það á auðvitað að vera vel gert. Það vilja allir fá sína vegi mokaða að vetri eða heflaða að sumri sem fyrst og enginn sáttur við að þurfa að bíða, eðlilega.
Hvað er skemmtilegast við vinnuna?
Kynnast nýju fólki, bæði samstarfsfólki og öðrum. Ég hef samanburðinn úr lögreglunni, þar kynntist ég helling af fólki en færri kynnin komu til af góðu, merkilegt nokk. Hérna er þetta allt öðruvísi sem betur fer. Samskiptin almennt eru mun jákvæðari þó auðvitað komi eitt og eitt neikvæðara tilvik. Það er frábært að geta orðið við óskum almennings um aðstoð Vegagerðarinnar og þannig „greitt götu þeirra“ í alls konar skilningi þessa orðalags. Svo er líka mjög skemmtilegt hvað vinnan er fjölbreytt. Maður fær eiginlega ekki tíma eða tækifæri til að fá leið á tilteknu verkefni, það næst ekki að sinna því nógu lengi
því það er annað verkefni tekið við.
Hver eru þín áhugamál?
Klassískt svar – fjölskyldan, elta krakkana á fótboltamót,útilegur og sumarbústaðaferðir. Svo væri hægt að nefna skotveiði þó henni hafi verið lítið sinnt undanfarið. Og líkaflest sem tengist sveitinni og vinnunni þar
Sveinfríður Högnadóttir
Hvað hefur þú unnið lengi hjá Vegagerðinni?
Ég byrjaði að vinna hjá Vegagerðinni árið 2006 því mig langaði að prufa eitthvað nýtt.
Í hverju felst starfið þitt?
Starfið er mjög fjölbreytt en mesti tíminn fer í að leiðbeina vegfarendum um færð og ástand á þjóðvegakerfi landsins. Við sjáum um að koma upplýsingum um færð og aðstæður á vefinn, umferdin.is. Einnig sjáum við um skiptiborð og reynum eftir bestu getu að koma símtölum áfram þegar viðmælandi veit ekki við hvern hann vill tala og ekki heldur hvað hann gerir, stundum er bara beðið um þennan rauðhærða með skeggið.
Hvað gerðir þú áður en þú komst til starfa hjá Vegagerðinni?
Ég starfaði sem ritari hjá Menntaskólanum á Ísafirðiáður en ég kom til Vegagerðarinnar. Eins og flestir unglingar í sjávarþorpi úti á landi vann ég við fiskinn með skólanum. Um tíma var ég kokkur á Hótel Ísafirði en lengst af hef ég unnið skrifstofustörf. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði og svo hef ég verið að taka hina og þessa áfanga, til dæmis lauk ég undirbúningsnámi í bókasafns- og upplýsingafræði.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
Það er erfitt að segja hvernig hefðbundinn vinnudagur er, en það fer eftir því hvernig veðrið er og hvaða tímiársins. Starfið er mjög árstíðabundið. Á veturna erumvið aðallega að svara fyrir um færð og veður en ásumrin erum við meira að svara ferðafólki sem er að spyrja um leiðir á hálendinu. Svo er mikið að gera í kringum opnanir á hálendinu.
Hvað er skemmtilegast við starfið?
Ég er mjög heppin með samstarfsfólk sem gerir vinnuna yfirleitt mjög skemmtilega. Fjölbreytileikinn er skemmtilegasti hluti starfsins, það má segja að engin tvö símtöl séu eins, þó svo að þar séu undantekningar á þegar vegir eru lokaðir. Þá kemur fyrir að við hljómum eins og biluð plata þegar við verðum að svara: „Nei, því miður er engin tímasetning komin um hvenær vegurinn opnast á ný.“
Hvað er mest krefjandi við starfið?
Það er þegar fólkið sem hringir er í erfiðum aðstæðum, svo sem fast uppi á heiði eða úti í á. Þá væri stundum gott að vera sálfræðimenntaður. Einnig er mjög krefjandi að róa fólk sem er reitt út í okkur og ekki er alltaf hægt að endurtaka það sem sagt er, en þá er bara að setja upp rólegu röddina og hlusta þar til það hefur fengið að blása aðeins.
Hvað gerir þú utan vinnu?
Að vera með fjölskyldunni sem fer stækkandi með hverju árinu, sem betur fer, er alltaf það sem tekur mestan tíma og er skemmtilegast. Þar fyrir utan er ég mikið að prjóna og lesa. Útivera, sund og ferðalög eru einnig hluti af því sem ég geri fyrir utan vinnu.