Sjóvarn­ir

Sjóvarnir eru varnir gegn sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar.

Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru dýrmæt mannvirki eða menningarminjar skulu að jafnaði njóta forgangs við gerð sjóvarna.

 

Áætlun um sjóvarnir

Áætlun um sjóvarnir er gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun og tilgreind í siglingamálaáætlunarkafla hennar. Við gerð áætlana um sjóvarnir hefur Vegagerðin samvinnu og samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn, landeigendur og aðra aðila sem að málinu koma.

Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu að sjóvörnum á áætlunartímabilinu. Unnið er í samvinnu við sveitarfélög eða landeigendur sem greiða a.m.k. 1/8 hluta kostnaðar. Við útdeilingu fjármagns er notað forgangsröðunarlíkan sem tekur tillit til sjávarrofs og verðmæta lands sem hverfur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaþörf í sjóvörnum aukist vegna hækkandi sjávarstöðu sem orsakast af hnattrænni hlýnun og jarðskorpuhreyfingum. Þá er töluvert um að sjóvarnir séu orðnar gamlar og þörf sé á endurbyggingu og styrkingu.

Ríkissjóður greiðir allt að 7/8 hlutum kostnaðar við undirbúning og framkvæmdir við sjóvarnir. Landeigendur og sveitarfélög, sem hag hafa af varnaraðgerðum á landi sínu, greiða minnst 1/8 hluta og skiptist kostnaður á milli landeigenda að tiltölu við stærð þess lands og strandlengju sem verja.


Lög og reglugerðir


Skýrslur


Umsóknir

Gefinn er kostur á að sækja um framlag til sjóvarna vegna flóðahættu eða landbrots af völdum ágangs sjávar. Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru mannvirki eða menningarminjar njóta forgangs við gerð sjóvarna. Vakin er athygli á að í 5. gr. sjóvarnalaga nr. 28/1997 er kveðið á um að landsvæði sem verja á, svo og varnarmannvirkin sjálf, hafi fengið meðferð samkvæmt skipulagslögum. Allar ábendingar og óskir sem berast frá sveitarfélögum um staði þar sem mannvirki eða önnur verðmæti eru í hættu af völdum sjávarflóða og landbrots verða skoðaðar, mat lagt á framkvæmdir og kostnað og verkefnum síðan forgangsraðað.