Sigl­ingar

Vegagerðin fer yfir áhættumat siglinga sem unnið er í samráði við stofnunina vegna mannvirkja í hafi og metur hvort og hvaða mótvægisaðgerðir séu nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi siglinga.

Vegagerðin ásamt Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu hafa unnið að því að útbúa matsferli fyrir áhættumat siglinga. Stofnanirnar hafa gefið út skýrslu þar sem gerð er grein fyrir áhættumati fyrir öruggar siglingar, skilgreiningum hugtaka og helstu áhrifaþáttum við mat á áhættu fyrir öruggar siglingaleiðir.

Í skýrslunni benda stofnanirnar á að siglingaleiðir hafa ekki verið skilgreindar sérstaklega í skipulagi áður og meginreglan hefur hingað til verið sú að sjófarendur hafa mátt telja allt hafið til siglingasvæðis.

Nú liggja fyrir drög að skipulagi fyrir haf og strandsvæði fyrir Aust- og Vestfirði þar sem siglingasvæði eru skilgreind sérstaklega og ráðgerð eru svæði til annara nota en fyrir siglingar. Meta þarf áhrif slíkra skilgreindra svæða á öryggi siglinga og þá sérstaklega m.t.t. reita í nýtingarflokknum staðbundin nýting sem staðsettir eru innan hvíts ljósgeira vitaljósa.

Almennt líta sjófarendur svo á að það svæði sem helgað er með hvítum ljósgeira vita og leiðarljósa í sjónarlengd þeirra, ásamt ljósduflum og sjó- og leiðarmerkjum marki siglingaleiðir til og frá höfnum og með ströndum landsins. Ljóst er að í dag eru í gildi rekstrar- og starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi sem eru staðsett innan hvítra ljósgeira í leiðsögukerfi siglinga og að meta þarf sérstaklega áhættu þess á öryggi siglinga.

Áhættumat siglinga byggir meðal annars á lögum nr. 132/1991 um vitamál, alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS, 1974 og tillögum svæðisráða að strandsvæðisskipulagi fyrir Austfirði og Vestfirði verði þær staðfestar af ráðherra. Rík ástæða er að mati stofnananna til þess að endurskoða löggjöfina á þessu sviði og styrkja og skýra hana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og fyrirsjáanleika.

Á það meðal annars við um framkvæmd áhættumats, hlutverk einstakra stjórnvalda í ljósi verkaskiptingar í þessum sem og öðrum tengdum málaflokkum. Eins hvað varðar málsmeðferð og réttaráhrif þess að stjórnvald meti fyrirhugaða staðsetningu leiðarmerkis eða mannvirkis óásættanlega fyrir öryggi siglinga.