Vakt­stöð

Vaktstöð Vegagerðarinnar vaktar færð og ástand vega allan sólarhringinn allt árið um kring. Þar fer einnig fram vöktun á veðri og vegbúnaði, boðun viðbragðsaðila, samræming aðgerða og miðlun upplýsinga.

Vaktstöð vinnur náið með umferðarþjónustu Vegagerðarinnar (1777), þjónustustöðvum Vegagerðarinnar um land allt, sveitarfélögum og eftir atvikum með lögreglu og björgunarsveitum.

Vaktstöð uppfærir upplýsingar um færð og ástand vega á umferdin.is og trafficinfo.is á íslensku, ensku og pólsku.

Hlutverk

Hlutverk vaktstöðvar er að vera miðlæg stjórnstöð fyrir þjónustu á vegum og í jarðgöngum. Stærstu verkefni vaktstöðvar snúa að framkvæmd vetrarþjónustu og vöktun jarðganga. Vaktstöðin sinnir einnig vöktun á vegum vegna snjóflóða, skriðufalla, eldgosa, jarðhræringa, vatnavaxta í ám, skemmda á vegum auk ýmissa annara verkefna sem ætlað er að stuðla að auknu öryggi vegfarenda.

Vaktstöðin samræmir vetrarþjónustu, vaktar færð og ástand vega, framfylgir vinnureglum fyrir vetrarþjónustu og vinnur að lokunum vega vegna veðurs, ástands eða hamfara. Vakstjórar boða út starfsmenn eða verktaka í vegaeftirlit, mokstur og hálkuvarnir í samstarfi við þjónustustöðvar sem eru á 18 stöðum um landið.

Í Hvalfjarðar-, Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum er vaktkerfi og eftirlits- og atvikamyndavélakerfi sem gerir vaktstjórum kleift að bregðast fljótt við ef hætta skapast fyrir vegfarendur. Kerfið nemur frávik frá almennri umferð um göngin. Frávik koma upp ef ökumenn stoppa í göngum, eldur kviknar í bíl, eitthvað fellur af bíl eða aftanívagni á veginn og ef hjólreiðamaður eða dýr fer inn í göngin, svo dæmi séu tekin.

Vaktstöð sér um að loka göngum ef nýta þarf jarðgöng fyrir forgangsakstur sjúkrabíla eða lögreglu. Miklar kröfur eru gerðar til öryggis í jarðgöngum og vöktun þeirra er einn þáttur í því að tryggja að Vegagerðin bregðist fljótt við ef þannig aðstæður skapast.

Vaktstöðvar Vegagerðarinnar er starfræktar í Garðabæ og á Ísafirði. Á vaktstöð starfa 22 vaktstjórar.

Vaktstöðin í Garðabæ

Vaktstöðin í Garðabæ

Vaktstöðin vaktar vegi og jarðgöng

Vaktstöðin vaktar vegi og jarðgöng

Umferðarþjónusta 1777

Umferðarþjónusta Vegagerðarinnar 1777 sér um að upplýsa vegfarendur um færð, ferðaveður og þjónustu á vegakerfinu frá morgni til kvölds allt árið um kring.

Umferðarþjónustan svarar fyrirspurnum vegfarenda í gegnum síma og tölvupóst, sendir út tilkynningar á umferdin.is, í smáskilaboðum og í tölvupósti auk þess að annast símsvörun á skiptiborði Vegagerðarinnar.

Umferðarþjónusta 1777 vinnur náið með vaktstöð Vegagerðarinnar að öflun og miðlun upplýsinga til vegfarenda.

Umferðarþjónusta 1777 er opin frá kl. 06:30 til 22:00 alla daga, allt árið.
Skiptiborð Vegagerðarinnar er opið alla virka daga frá kl. 08:00-16:00.

Hlutverk

Hlutverk umferðarþjónustu 1777 er að veita vegfarendum nýjustu upplýsingar um færð og veður, veita leiðsögn og stuðning í síma og í tölvupóstsamskiptum, veita umsagnir vegna undanþága um þungatakmarkanir á vegum og svara fyrirspurnum um Loftbrú.

Þjónustufulltrúar fylgjast vel með veðurspám og aðstæðum á vegum, taka við ábendingum vegfarenda og miðla þeim áfram til vakstöðvar og þjónustustöðva Vegagerðarinnar.

Veturnir eru annasamasti tíminn hjá umferðarþjónustunni. Á erilsömum vetrardegi svarar umferðarþjónustan hátt í 3.000 símtölum og sendir út í kringum 150 tilkynningar, sem birtast á umferdin.is og trafficinfo.is.

Á sumrin hringja vegfarendur til að fá aðstoð við að skipuleggja ferðalög milli staða, afla upplýsinga um vegalengdir og ástand vega á hálendinu. Einnig er hringt inn með ábendingar og hvatningu um að sinna ýmsum verkum á borð við rykbindingu og heflun vega, láta vita af holum og skemmdum í vegum, fá aðstoð við Loftbrú, auk þess sem vegfarendur spyrjast gjarnan fyrir um framkvæmdir sem eru í gangi.

Umferðarþjónustan er starfrækt á Ísafirði og þar starfa átta manns sem hafa góða reynslu í upplýsingagjöf til vegfarenda.

Umferðarþjónustan sendir daglega út tilkynningar um færð og veður, framkvæmdir, lokanir og þungatakmarkanir sem geta haft áhrif á akstur um vegakerfið. Nýjustu tilkynningar má sjá á umferdin.is.