Umsóknir um rannsóknarstyrki

Hér með er auglýst eftir umsóknum um styrki úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til rannsóknarverkefna fyrir árið 2021.


Frestur til að skila umsóknum rennur út á miðnætti að kvöldi  29. janúar 2021.
[Bent er á að lesa allan textann hér fyrir neðan, áður en umsókn er samin og send inn.]


Aðilar innan og utan Vegagerðarinnar geta sótt um fjárframlög til rannsóknaverkefna, sem tengjast starfsemi stofnunarinnar. Rannsóknaráð stofnunarinnar sér um úthlutun styrkja. 

Rannsóknum Vegagerðarinnar er skipt í fjóra meginflokka: Mannvirki; Umferð; Umhverfi; Samfélag. Áherslur Vegagerðarinnar fyrir þessa flokka taka almennt mið af því að markmið rannsóknasjóðs er meðal annars að stuðla að því að Vegagerðin geti sinnt hlutverki sínu og jafnframt að afla nýrrar þekkingar á starfssviði hennar.

Í nýrri stefnu Vegagerðarinnar fyrir árin 2020-2025, kemur fram að hlutverk Vegagerðarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum á sjó og landi. Þá skal hún stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Benda má á aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í þessu samhengi. Rannsóknaverkefni ættu því að taka almennt mið af þessu.

Benda má á að í rannsóknastefnu Vegagerðarinnar sem finna má á vef stofnunarinnar er liður um að stuðla að nýliðun innan fagsviða sem tengjast starfsemi Vegagerðarinnar, með samstarfi við háskólastofnanir. Þess vegna eru umsóknir frá háskólum með þátttöku nemenda í verkefnum velkomnar, en þó er rétt að benda á slíkar umsóknir munu ekki njóta forgangs og verða afgreiddar með öðrum umsóknum.

Við skilgreiningar rannsóknaverkefna skal í upphafi áætla hverjir koma til með að nota niðurstöður úr verkefnunum og gefa þeim tækifæri á að koma að mótun verkefnisins og innleiðingu niðurstaðna ef þurfa þykir. Þá er einnig bent á, að mikilvægt er að kanna heimildir um fyrri rannsóknir, sem hugsanlega hafa verið gerðar, tengdar viðkomandi umsókn um verkefnastyrk.

Vegagerðin er í samstarfi við systurstofnanir sínar á Norðurlöndunum um rannsóknir (sjá hér: www.nordfou.org ). Gjarnan má velta fyrir sér hvort umsókn hafi norræna skírskotun, þ.e. er líklegt að það sem fjalla á um í verkefninu sé einnig áhugavert fyrir hin Norðurlöndin. Ef svo er, má það gjarnan koma fram í umsókninni.

Umsækjendur þurfa að fylla út rafrænt umsóknareyðublað, sem nálgast má á „mínum síðum“ á vef Vegagerðarinnar.  

Við mat umsókna verður tekið tillit til atriða sem fram koma í eftirfarandi töflu. Lögð er áhersla á að leiðbeiningum í umsóknareyðublaði sé fylgt og vafaatriði vegna skorts á upplýsingum geta fallið umsókn í óhag.

 

Markmiðasetning

(e. Excellence)

Áhrif

(e. Impact)

Framkvæmd

(e. Implementation)

Hve skýr eru markmiðin, eru forsendur þeirra rökréttar?

Hve raunhæf, trúverðug og markviss er aðferðafræðin?

Er rannsóknarspurningin í takt við stöðu þekkingar í dag?

Munu niðurstöður bæta einhverju við stöðu þekkingar sem um munar?

Að hve miklu leyti styður verkefnið og niðurstöður þess við markmið sjóðsins?

Hversu líklegar eru niðurstöðurnar til að gagnast Vegagerðinni?

Hve vænleg er framkvæmdaáætlun, eru aðföng og vinnuafl nægjanleg m.t.t. þess sem gera skal, þ.m.t. hæfni þátttakenda?

Ríkir áhætta um framkvæmdina, er gerð grein fyrir því hvernig tekið er á henni?

Upplýsingar um afgreiðslu umsókna verður að finna á „mínum síðum“ þegar þær liggja fyrir, en miðað er við að það verði í fyrri hluta mars 2021. Tilkynning verður send á þau tölvupóstföng umsækjanda og verkefnisstjóra, sem skráð eru í umsókninni.

Upplýsingar um verkefni sem fá fjárveitingu verða birtar á vef Vegagerðarinnar.

Vakin er athygli á því að Vegagerðin er að ljúka við þróun á sniðmáti fyrir rannsóknaskýrslur og verður það kynnt sérstaklega.

Fyrirspurnir má senda í tölvupósti til Ólafs Sveins Haraldssonar forstöðumanns rannsóknadeildar, olafur.s.haraldsson(hjá)vegagerdin.is.