LRIT (Long Range Identification and Tracking)

Alþjóðlegt eftirlitskerfi með siglingum á úthöfunum

Hvað er LRIT?

LRIT er eftirlitskerfi til að bera kennsl á skip og til að fylgjast með siglingu þeirra um úthöfin. Kerfið byggir á sendingum frá skipum um gervihnetti í móttökustöðvar á jörðu niðri og þaðan í samtengda gagnagrunna. Upplýsingum um skipin er síðan miðlað til þeirra sem rétt hafa til aðgengis að þeim. Það getur verið fánaríki viðkomandi skips, strandríki, komuhöfn skipsins eða leitar- og björgunarstöðvar. Öflun og dreifing upplýsinga úr kerfinu er á hendi hvers og eins ríkis og fer fram í samræmi við gagnadreifingaráætlun (Data Distributing Plan) DDP. Hvernig er LRIT komið til?

Alþjóðasiglingamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, IMO, samþykkti einróma á fundi sínum 19. maí 2006  að koma kerfinu á. Samþykkt þessa má finna  í ákvörðun fundarins MSC.202 (81) og í fimmta kafla SOLAS 1974 samþykktarinnar. Í þessum gögnum kemur  fram  LRIT skuli vera í öllum farþegaskipum, flutningaskipum yfir 300 brúttótonn og í færanlegum úthafsborpöllum. Búnaður til sendinga á að vera kominn í öll skip nú þegar og kerfið á að vera orðið virkt á árinu 2009.

Hvernig nýtast upplýsingar úr kerfinu?

Upplýsingar úr LRIT kerfinu geta yfirvöld nýtt til almenns eftirlits með siglingum skipa um lögsögu sína og til þess að grípa inn í ef um ógnun er að ræða gagnvart umhverfinu, siglingaöryggi eða öðrum hagsmunum ríkisins. Upplýsingarnar nýtast einnig við leit og björgun og gefa yfirsýn yfir skip á eða í nágrenni við leitar- eða björgunarsvæðið. Í þessu skyni er hægt að finna öll skip á ákveðnu svæði með fjarvirkjun sendibúnaðar þeirra.

Uppsetning búnaðar í íslensk skip

Íslensk skip sem falla undir eða kunna að falla undir SOLAS samþykkt IMO og eiga þar með að vera búin LRIT búnaði, þurfa að hafa samband við Siglingastofnun Íslands. Stofnunin hefur samþykkt einn erlendan aðila, Fulcrum Buisness Solutions Ltd, sem ASP (Application Service Provider) sem gerir úttekt og samþykkir LRIT búnað í íslenskum skipum. Kostnaður við úttektina fellur á útgerð viðkomandi skips.

Siglingaöryggisstofnun Evrópusambandsins (EMSA) rekur gagnamiðstöð vegna LRIT gögn fyrir Evrópusambandsríkin, Noreg og Ísland.

Long Range Identification and Tracking