• Merki Vegagerðarinnar með nafni

Meginmarkmið, hlutverk, gildi og stefnur ásamt nýju skipuriti

Vegagerðin

Ný Vegagerð varð til með sameiningu hluta Siglingastofnunar og stærsta hluta Vegagerðarinnar þann 1. júlí  2013. Í kjölfar þess fór fram stefnumótunarvinna starfsmanna nýrrar stofnunar. Þeirri vinnu lauk með endurgerð meginmarkmiða Vegagerðarinnar, hlutverks og framtíðarsýnar. Auk þess völdu starfsmenn gildi Vegagerðarinnar.

Veturinn 2018-2019 fór fram stefnumótunarvinna á ný. Niðurstaða hennar var nýtt skipurit auk þess sem einu gildi, þjónustu, var bætt við. 

Markmið vinnunnar var að móta samræmda sýn starfsfólks og stjórnenda til framtíðar og marka stefnumótandi áherslur fyrir starfsemi Vegagerðarinnar til ársins 2025. Breið og virk þátttaka starfsfólks og hagaðila stofnunarinnar var höfð að leiðarljósi í stefnumótunarferlinu sem fól í sér eftirfarandi lykilþætti:

  1. Starfsmannafundir
  2. Viðtöl við lykilstjórnendur og ytri hagaðila
  3. Skoðanakönnun meðal starfsmanna
  4. Vinnustofur í miðstöð og á öllum svæðismiðstöðvum með fulltrúum framkvæmdastjórnar Vegagerðarinnar
  5. Úrvinnsla með stjórnendum við að draga fram niðurstöður
  6. Samantekt og framsetning

Ráðgjafarsvið KPMG var Vegagerðinni til aðstoðar við mótun nýrrar stefnu.

Niðurstöður vinnunnar endurspegla áherslur Vegagerðarinnar og hvernig hún hyggst takast á við þær breytingar sem blasa við í starfsumhverfi stofnunarinnar á komandi árum.

Stefna Vegagerðarinnar 2020-2025

Skipurit sem tók gildi 1. júní 2019
Kort af svæðaskiptingu


Meginmarkmið

  • Öruggar og greiðar samgöngur á sjó og landi.
  • Hagkvæm uppbygging og rekstur samgöngukerfisins í sátt við umhverfið.
  • Skilvirk og vel skipulögð starfsemi.
  • Ábyrgt, hæft og ánægt starfsfólk.


Hlutverk

Vegagerðin starfar samkvæmt lögbundnu hlutverki sínu þar sem m.a. kemur fram:

„Vegagerðin skal í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Þá skal stofnunin stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.“


Framtíðarsýn til 2025

Stýring uppbyggingar og þjónustu samgöngukerfisins á sjó og landi með samkeppnishæfni Íslands, sjálfbærni og öryggi að leiðarljósi


Stefna Vegagerðarinnar í hnotskurn

Öruggar samgöngur
Við uppbyggingu og þróun samgöngukerfisins eru greiðar samgöngur og öryggi einstaklinga forgangsatriði svo ekki komi til alvarlegra slysa.
Upplýsingar og þekking
Vegagerðin miðlar faglegum upplýsingum um samgöngukerfið til stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs og eflir þannig grundvöll stefnumótandi ákvarðanatöku.

Skipulag og starfsemi
Innviðir Vegagerðarinnar byggja á skilvirkri stjórnun, straumlínulöguðum ferlum, öflugum tækjabúnaði og virku gæðakerfi.

Þjónusta
Vegagerðin er þjónustumiðuð stofnun sem nýtir tækniþekkingu til umferðarstýringar og bætts samgönguöryggis með notendavænni þjónustu og miðlun upplýsinga í rauntíma.

Samþætting samgöngumáta
Vegagerðin er leiðandi í skipulagi og uppbyggingu vistvænna og samþættra samgöngumáta á landsvísu í nánu samstarfi við
stjórnvöld og sveitarfélög.


Gildi

  • Gildi Vegagerðarinnar voru mótuð af starfsmönnum og endurspegla þá grunnþætti sem Vegagerðin og starfsemi hennar stendur fyrir. Gildin draga fram og byggja á bæði hlutverki Vegagerðarinnar og þeim brag sem starfsmenn fylgja í daglegum störfum sínum


  • Fagmennska

Við búum yfir sérþekkingu og vinnum af fagmennsku

  • Öryggi

Við höfum öryggi ávallt í fyrirrúmi

  • Framsýni

Við byggjum á reynslu og horfum til framtíðar
Þjónusta
Við mætum þörfum samfélagsins með góðri þjónustu


Stefnur Vegagerðinnar byggja á þessum meginmarkmiðum, sjá valmynd hér til vinstri.