Umferðaröryggisstefna

Vegagerðin mun vinna að því bæði ein og í samvinnu við aðra að þau markmið náist sem Alþingi ákveður hverju sinni og fram koma í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda en sú áætlun er samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra.

Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda

Gildandi umferðaröryggisáætlun nær yfir tímabilið 2024-2038 og hana má finna á vef Stjórnarráðs Íslands. 

Stefna stjórnvalda í umferðaröryggismálum er:

Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Mannslíf og heilsa skulu vera í öndvegi og öryggi fremst í forgangsröðun aðgerða í umferðarmálum. Við skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja skal öryggi vera í forgangi af því að mannleg mistök eru óhjákvæmileg. Stjórnvöld og stofnanir skulu eiga í góðu samstarfi við alla vegfarendahópa til að ná sátt um aðgerðir sem auka öryggi allra vegfarenda.

Yfirmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2038:

  • Að Ísland verði í hópi fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.
  • Að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2038.
  • Að slysakostnaður á hvern ekinn kílómetra lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2038.

Áherslur Vegagerðarinnar í umferðaröryggi 2024-2038

Vegfarendur
Vegagerðarmenn séu til fyrirmyndar í umferðinni.

Mælingar á umferðarhraða og rekstur sjálfvirks hraðaeftirlits, þ.m.t. meðalhraðaeftirlits.

Upplýsingagjöf til vegfarenda.

Öruggari vegir
Framkvæmdir Vegagerðarinnar lúta umferðaröryggisstjórnun en hún felst í því að fylgja ákveðinni aðferðafræði, sem hefur umferðaröryggi að leiðarljósi, við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttekt á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun. Megináhersla er og verður lögð á að vegir, og umhverfi þeirra, verði gerðir öruggari þannig að mannleg mistök í umferðinni leiði síður til alvarlegra slysa.

Áhersla er lögð á góða og örugga innviði fyrir alla samgöngumáta með aðskilnaði óvarinna vegfarenda og annarrar umferðar á vegum og stígum og aðgerðum til að auka öryggi óvarinna vegfarenda þar sem þjóðvegir liggja um þéttbýli í samstarfi við sveitarfélög.

Gagnasöfnun og rannsóknir
Vegagerðin safnar og vinnur úr gögnum um umferð og eiginleika vega. Vegagerðin fær gögn um umferðarslys frá Samgöngustofu og vinnur áfram með þau í þeim tilgangi að finna  þá staði eða kafla þar sem umferðaröryggisaðgerðir skila mestum árangri.

Vegfarendur

Vegagerðarmenn séu til fyrirmyndar í umferðinni
Eðli máls samkvæmt eru starfsmenn Vegagerðarinnar mikið á ferðinni. Mikil áhersla er lögð á að þeir séu til fyrirmyndar í umferðinni.

Leyfilegur hámarkshraði
Hraði ökutækja hefur mikil áhrif á hversu alvarlegar afleiðingar umferðarslysa verða. Vegagerðin sér um rekstur umferðargreina sem staðsettir eru víða um land og fylgist þannig með umferðarhraða. Vegagerðin sér einnig um rekstur flestra sjálfvirkra hraðamyndavéla þótt allt er viðkemur sektum sé á ábyrgð lögreglu.  Á tímabilinu verður sérstök áhersla lögð á sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit. Við meðalhraðaeftirlit eru teknar myndir með tveimur myndavélum af hverju ökutæki og er meðalhraðinn milli myndavélanna reiknaður út frá fjarlægð milli vélanna og tíma milli mynda. Áhrif meðalhraðaeftirlits á fjölda látinna og alvarlega slasaðra eru metin hlutfallslega meiri en áhrif sjálfvirks punkthraðaeftirlits og einnig er áhrifasvæði meðalhraðaeftirlits stærra en áhrifasvæði sjálfvirks punkthraðaeftirlits.

Upplýsingagjöf
Vegagerðin veitir vegfarendum sem bestar upplýsingar um ástand vega og akstursaðstæður og eykur þannig umferðaröryggi þeirra.

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga
Vegagerðin kom að gerð leiðbeininga um gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög og fjármagnar ýmsar umferðaröryggisaðgerðir sem lagðar eru til í þeim áætlunum.

Endurskoðuð stefna birt á vef janúar 2026