Hlutverk Vegagerðarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum og sjá til að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.
Með sjálfbærnistefnu setur Vegagerðin sér markmið um að innleiða sjálfbærni í starfsemi sína, allt frá hönnun mannvirkja til framkvæmda og reksturs. Vegagerðin stefnir að því að lágmarka rask og neikvæð umhverfisáhrif, viðhafa góð og fagleg vinnubrögð, skapa jöfn tækifæri og tryggja örugga samgöngumáta fyrir alla vegfarendur. Sjálfbærnistefnan tekur mið af stefnu Vegagerðarinnar 2024-2028 þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni undir yfirskriftinni „Sjálfbærni með í för“. Sjálfbærnistefnan er í samræmi við áherslur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega staðla í sjálfbærni.
Forstjóri Vegagerðarinnar ber ábyrgð á sjálfbærnistefnunni, en einstökum verkþáttum og aðgerðum er úthlutað skilgreindum ábyrgðaraðilum samkvæmt aðgerðaáætlun sem gefin er út samhliða stefnunni.
Sjálfbærnistefnan byggir á þremur meginstoðum sjálfbærrar þróunar; umhverfislegri sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og hagsæld og sjálfbærum stjórnunarháttum sem allar styðja hver aðra. Framfylgd stefnunnar er í samræmi við aðgerðaráætlun sem felur í sér tímasettar aðgerðir, skýra ábyrgð og reglulega eftirfylgni með stefnuáherslum.
Mælikvarðar sjálfbærnivísa aðgerðaráætlunar eru reglulega uppfærðir og ber deild umhverfis og sjálfbærni ábyrgð á eftirfylgni þeirra.
1. Umhverfisleg sjálfbærni
Vegagerðin leggur áherslu á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi sinnar og minnka kolefnisspor með hringrásarhugsun og styðja loftslagsvænar lausnir í framkvæmdum og þjónustu.
2. Samfélagsleg ábyrgð
Vegagerðin vinnur að því að tryggja öruggar og fjölbreyttar samgöngur fyrir alla notendur, sem stuðlar að betra aðgengi að þjónustu, búsetu og störfum og styrkir tengsl milli svæða.
Vegagerðin tryggir sanngjarna starfshætti og styður við fjölbreytileika og jöfn tækifæri, óháð bakgrunni, kyni eða öðrum þáttum.
3. Hagsæld og sjálfbærir stjórnunarhættir
Vegagerðin stefnir að því að skapa jöfn tækifæri og örugga samgöngumáta fyrir alla vegfarendur.
Samþykkt 5. maí 2025