Forsaga Landeyjahafnar

Forsagan

Haustið 2000 samþykkti Alþingi tillögu um að samgönguráðherra feli Siglingastofnun Íslands að hefja rannsóknir á ferjuaðstöðu í Bakkafjöru. Megin úrlausnarefnið var að leysa þau verkefni sem fylgja hinu kröftuga brimi sem dynur á óvarinni sandströndinni.

Margs konar rannsóknir fóru fram á vegum Siglingastofnunar, félagið Ægisdyr stóð fyrir könnunum á jarðgangakostinum og í samgönguráðuneytinu var athuguð hagkvæmni áframhaldandi siglinga milli Þorlákshafnar og Heimaeyjar.

Að tillögu samgönguráðherra í júlí 2007 var jarðgangahugmyndin slegin út af borðinu og ákveðið í ríkisstjórn að ráðast í gerð Landeyjahafnar í samræmi við samgönguáætlun áranna 2007 til 2010. Hafnargerðin í Landeyjum var boðin út í apríl 2008 og í kjölfar þess skrifuðu þeir Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri undir aðalverksamning við Dofra Eysteinsson, framkvæmdastjóra Suðurverks, 15. ágúst 2008. Einnig undirrituðu samninginn Elliði Vignisson bæjarstjóri og Elvar Eyvindsson sveitarstjóri.

Rannsóknir

Sérfræðingar Siglingastofnunar höfðu forgöngu um allar rannsóknir við undirbúning Landeyjahafnar og fengu til liðs við sig erlenda sérfræðinga. Í rannsóknarstöð stofnunarinnar var byggt líkan af höfn þar sem gerðar voru athuganir á væntanlegum mannvirkjum og skipslíkan notað til að kanna innsiglingu.

Lagðar voru til grundvallar kröfur um hámarks ölduhæð og strauma í hafnarmynni og ölduhreyfingu í ferjulægi. Niðurstöður lágu fyrir 2006 og sýndu að unnt væri að staðsetja höfnina og þróa heppilega innsiglingu, nægilega örugga fyrir ferjusiglingar. Unnar voru skýrslur í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga og niðurstöðurnar byggðust á vísindalegum rannsóknum, reynslu af hafnargerð á Íslandi og áhrifum á þróun byggðar og umhverfis. Í stuttu máli staðfestu þær að ferjuhöfn í Bakkafjöru væri raunhæf, ferjusiglingar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja yrðu mjög til bóta fyrir mannlíf í Eyjum og myndu styrkja innviði á Suðurlandi.

Auk Siglingastofnunar unnu fjölmargir að rannsóknum á verkinu og áhrifum þess.

Hönnun

Leiðarljós við staðsetningu og form hafnarinnar var að hún raski ekki náttúrulegu jafnvægi efnisburðar við ströndina. Ölduhæðin við suðurströndina er lægst undan Bakkafjöru en ferjuhöfnin er varin með tveimur brimvarnargörðum, svokölluðum bermugörðum sem er séríslensk hönnun þróuð af Siglingastofnun. Starfsmenn Siglingastofnunar hönnuðu höfnina, varnargarða, bryggju, farþegalandgang og ekjubrú og höfðu umsjón með deiliskipulagi og hönnun ferjuaðstöðu.

Framkvæmd

Landgræðsla hófst sumarið 2007 og hefur staðið óslitið síðan. Brimvarnar-, sjóvarnar- og flóðvarnargarðar auk bryggju, vega- og brúargerðar voru boðnir út vorið 2008. Lægstbjóðandi var Suðurverk og hófust framkvæmdir það haust. Byrjað var á vinnslu grjóts úr námu í Seljalandsheiði og því komið fyrir í Markarfljóti og um miðjan maí 2009 hófst röðun grjótgarða. Í upphafi ársins 2010 var byrjað að steypa bryggjuna, smíði farþegaaðstöðunnar hófst í febrúar og smíði ekjubrúar og farþegalandgangs í mars. Dýpkun hófst í apríl 2010. Í maí 2010 var síðasta verkið, lóðafrágangur, boðið út og er stefnt að því að honum verði lokið nú í haust.

Ferðatíminn á sjó milli lands og Eyja styttist verulega, úr tæpum þremur klukkustundum í rúmar 30 mínútur og samtals styttast því sigling og akstur til Reykjavíkur úr fjórum klukkustundum í rúmar tvær.