Saga og minjar

Landsverkfræðingurinn
Árið 1893 var ráðinn til starfa fyrsti verkfræðingur landsins. Það stöðuheiti varð síðar að embætti landsverkfræðings. Fyrsti landsverkfræðingurinn var Sigurður Thoroddsen en hann var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í verkfræði. Sigurður gegndi embætti til 1904 en tók þá við starfi kennara við Lærða skólann í Reykjavík. Tveir aðrir gegndu embætti landsverkfræðings, þeir Jón Þorláksson og Thorvald Krabbe.

Vegagerðin
Í upphafi árs 1918 var embætti landsverkfræðings skipt í tvo hluta, embætti vegamálastjóra (Geir G. Zoega) og vitamálastjóra (Thorvald Krabbe) en frá þeim þróuðust stofnanirnar Vegagerð ríkisins og Vita- og hafnamálaskrifstofan. Vegagerð ríkisins heitir nú samkvæmt vegalögum Vegagerðin.

Vegminjasafn
Vegminjasafnið á sér þegar nokkurra áratuga sögu. Safnað hefur verið saman ýmsum munum og upplýsingum frá fyrri tíð, og nokkrar vélar sem notaðar voru við vegagerð hafa verið gerðar upp til varðveislu. Upphaf safnsins má rekja til þess að Starfsmannafélag Vegagerðarinnar hóf söfnun gamalla muna er tengdust vegagerð. Það var svo í byrjun árs 1989 að Vegagerðin tók við umsjón safnsins.