Hafnabótasjóður

Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer Vegagerðin með stjórn sjóðsins í umboði innviðaráðherra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, A-deild og B-deild. Hlutverk A-deildar sjóðsins er að fjármagna hlut ríkisins í ríkisstyrktum framkvæmdum en B-deildar að fjármagna tjónaviðgerðir.

Tekjur Hafnabótasjóðs eru tekjur af starfsemi sjóðsins og framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni. Hafnabótasjóði er heimilt að taka lán vegna starfsemi sinnar samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni. Vegagerðin ráðstafar fé Hafnabótasjóð með samþykki ráðherra á eftirgreindan hátt: 

  1. Fjármagnar framkvæmdir ríkisins samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi. 
  2. Hafnabótasjóði er heimilt að starfrækja þróunardeild hafna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnu sérstöku fjárframlagi samkvæmt samþykkt Alþingis. Markmið þróunardeildarinnar er að styðja minni hafnir á landsbyggðinni sem eru mikilvægar fyrir byggðarlagið og atvinnuuppbyggingu þess. 
  3. Hafnabótasjóði er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem eru styrkhæf skv. a-lið og c-lið 2. mgr. 24. gr. hafnalaga 61/2003 , þ.m.t. tjón sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði eða vegna ákvæða IX. kafla siglingalaga um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna. 

Vegagerðin annast vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs. Lánasýsla ríkisins veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár. Heimilt er með samþykki ráðherra að fela lánastofnun umsýslu lána sjóðsins. 

Sjá nánar hafnalög nr.  61/2003.