Umhverfismat

Mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda fer fram á nokkrum stigum. Sjá í töflunni hér að neðan.

Matsskyldar framkvæmdir

Tilkynningaskyldar
framkvæmdir

Framkvæmdir ekki
matsskyldar

Skilgreining X X X
Umhverfismat samgönguáætlunar X X X
Kynningargögn
X X
Tilkynning/könnun á matsskyldu X
Matsáætlun X
Umhverfismatsskýrsla X
Framkvæmdaleyfi X X X

Nánari skýringar á ferlinu eru í texta hér að neðan og á vef Skipulagsstofnunar.

Skilgreiningarblöð: Vegagerðin gerir skilgreiningarblöð fyrir verk á samgönguáætlun, hvort sem þau eru háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Í skilgreiningu er fjallað um fyrirhugaða framkvæmd í grófum dráttum og gerð grein fyrir stöðu hennar gagnvart gildandi skipulagi og mati á umhverfisáhrifum. Skilgreiningarblöðin eru uppfærð eftir því sem áætlanir breytast.

Umhverfismat áætlana: Samgönguáætlun til fimmtán ára fellur undir kafla III í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Umhverfismatinu er ætlað að tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun strax á áætlanastigi. Sjá vef samgönguáætlunar.

Kynningargögn: Vegagerðin gerir kynningargögn fyrir framkvæmdir, sem tilkynna þarf til Skipulagsstofnunar vegna könnunar á matsskyldu og/eða vegna umsóknar um framkvæmdaleyfi. Kanna þarf matsskyldu framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka, tölulið 2.02, 2.03, 10.03, 10.08 og 10.18 í lögum um mat á umhverfisáhrifum auk allra framkvæmda á verndarsvæði. Kynningargögn taka mið af umfangi og umhverfisáhrifum verks og miðast við að unnt sé á grundvelli þeirra að meta helstu umhverfisáhrif sem hljótast af framkvæmdinni og leggja til mótvægisaðgerðir til að draga úr þeim. Gögnin eru send til viðkomandi sveitarfélaga um leið og þau liggja fyrir.

Tilkynning um framkvæmd sem kann að vera háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana er send Skipulagsstofnun sem ákvarðar hvort framkvæmdin sé matsskyld eða ekki.

Matsáætlun: Framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka, tölulið 2.01, 10.06, 10.07 og 10.09 í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru alltaf háðar mati á umhverfisáhrifum. Matsáætlun sem unnin er í samráði við Skipulagsstofnun og hagsmunaaðila er gerð fyrir matsskyldar framkvæmdir. Í henni kemur fram hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati fyrirhugaðrar framkvæmdar og á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis verði lögð áhersla í umhverfismatsskýrslu.

Umhverfismatsskýrsla: Þegar Skipulagsstofnun hefur samþykkt matsáætlun er unnin umhverfismatsskýrsla þar sem metin eru umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir eftir því sem við á. Skipulagsstofnun auglýsir síðan skýrsluna og leitar umsagna umsagnaraðila og athugasemda almennings innan sex vikna. Skipulagsstofnun getur farið fram á að Vegagerðin leggi fram frekari gögn ef þau eru nauðsynleg til að komast megi að niðurstöðu um umhverfismat framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar: Innan sjö vikna frá því að kynningu á umhverfismatsskýrslu lýkur gefur Skipulagsstofnun álit um umhverfismat framkvæmdarinnar. Í álitinu er fjallað um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Þá kemur fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint er til leyfisveitenda. Þegar álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir er það kynnt framkvæmdaraðila, umsagnaraðilum og almenningi.

Framkvæmdaleyfi: Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi eftir að hafa kynnt sér kynningarskýrslu eða umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar um framkvæmdina og tekur rökstudda afstöðu til ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu eða álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar við leyfisveitinguna. Í framkvæmdaleyfi geta verið skilyrði um mótvægisaðgerðir, vöktun og öryggisráðstafanir til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið, menningarminjar og náttúrufyrirbæri, eða til að tryggja öryggi. Ákvörðun sveitarstjórnar er hægt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.