Vitasaga

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúk á Reykjanesi árið 1878. Um aldamótin 1900 voru vitarnir 5 að tölu en uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað.

Öryggishlutverki vitanna má skipta í þrennt. Þeir leiðbeina um staðsetningu, vara við siglingahættum og vísa leið inn á hafnir og skipalægi. Í dag eru þeir ljósvitar við strendur landsins sem Vegagerðin hefur umsjón með alls 104 að tölu en þá er ótalinn fjöldi innsiglingar- og hafnarvitar í eigu og umsjá sveitarfélaga.
  
 
Vitar á Íslandi Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002
Haustið 2002 gaf Siglingastofnun út bók um sögu vitaþjónustunnar á Íslandi: Vitar á Íslandi Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002 sem þeir Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson eru höfundar. Í þeirri bók er saga íslensku vitaþjónustunnar rakin frá upphafi. Greint er frá uppbyggingu og rekstri vitakerfisins, þætti vitavarðanna gerð skil og fjallað um tengsl byggingarstíls vitanna við strauma og stefnur í samtíma þeirra. Bókina prýðir og fjöldi ljósmynda.

Vitar á Íslandi

Bókin fékk viðurkenningu Upplýsingar - Félags bókasafns- og upplýsingafræða sem besta frumsamda íslenska fræðibókin fyrir fullorðna árið 2002.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir m.a. að úrslitaáhrif við valið hafi haft að um brautryðjandaverk væri að ræða, þ.e. fyrsta heildarritið um vita á Íslandi, ótvírætt handbókargildi og sérstaða bókarinnar, að efnisuppbygging og framsetning efnis væri skipulegt og aðgengi upplýsinga vel tryggt með efnisyfirliti og hjálparskrá. Yfirgripsmikil tilvísana- og heimildaskrá, ítarlegur efnisútdráttur á ensku og myndatextar bæði á íslensku og ensku auka enn á gildi bókarinnar að mati félagsins.