AIS

Sjálfvirkt auðkenniskerfi skipa, AIS-kerfið, samanstendur af sendi- og móttökutækjum um borð í skipum, strandstöðvum sem taka við upplýsingum og senda þær, gagnabanka sem varðveitir upplýsingar og miðlar þeim og boðskiptaleiðum milli kerfiseininga. Tæknibúnaður AIS-kerfisins byggir á alþjóðlegum stöðlum og er í notkun víða um heim.

Starfsmenn Siglingastofnunar Íslands settu fyrstu landstöðina fyrir AIS-kerfið upp í Bláfjöllum vorið 2004. Í árslok 2007 voru landstöðvarnar orðnar 15 talsins og kerfið nær nú yfir allar siglingaleiðir og helstu veiðislóðir við landið, allt að 70 sjómílur (130 km) á haf út, en útbreiðsla þess nær ekki yfir alla firði og flóa. Notendur upplýsinga úr kerfinu hér á landi eru einkum: Vaktstöð siglinga, Landhelgisgæsla Íslands, Samgöngustofa, hafnir, Fiskistofa og skipstjórnendur. Auk þess hefur Atlantshafsbandalagið aðgang að AIS-upplýsingum.

Eiginleikum AIS-kerfisins er lýst í Til sjávar, fréttabréfi Siglingastofnunar 1. tbl. 2007.