• Samgöngusafnið í Skógum

Vegminjasafn Vegagerðarinnar

Vegagerðin rekur minjasafn sem heitir Íslenska vegminjasafnið. Heiti þess er stytt í Vegminjasafnið.

Vegminjasafnið á sér nokkurra áratuga sögu. Safnað hefur verið saman ýmsum munum og upplýsingum frá fyrri tíð, og nokkrar vélar sem notaðar voru við vegagerð hafa verið gerðar upp til varðveislu.

Safnið á töluvert af munum, tækjum og tólum. Þetta eru vegagerðarvélar, skúrar, tjöld, handverkfæri, ljósmyndir, mælingatæki, skrifstofuáhöld, umferðarskilti, smíðaverkfæri, reiðtygi, líkön og margt fleira.

Vettvangur Vegminjasafnsins er Ísland allt. Undir það heyra minjar, sem eðli málsins samkvæmt, verða ekki sýndar inni í húsum. Það eru til dæmis gamlir vegir og brýr.

Árið 2002 var gerður samningur við Samgöngusafnið í Skógum undir Eyjafjöllum, um að það haldi sýningar á safngripum Vegminjasafnsins. Samgöngusafnið er hluti af Byggðasafninu í Skógum.

Vegminjasafnið er með eina deild í Samgöngusafninu, þar sem sýndir eru ýmsir munir þess, svo sem, ámokstursskóflur, vegheflar, valtari, vörubíll, snjóbíll, vegavinnutjald með búnaði og ýmislegt annað. Sjá vef Samgöngusafnsins

Afar mikilvægt er að varðveita mannvirki sem minna á gamla tíma og eru einkennandi fyrir fyrritíðar verkhætti, vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Þetta á einnig við um muni sem mannvirki.

Ýtarlegri upplýsingar um Vegminjasafnið má sjá í greininni „Vegminjasafnið.pdf."