Jafnlaunastefna

 

A0083001-minniForstjóri ber ábyrgð á að jafnlaunastjórnunarkerfi Vegagerðarinnar standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Jafnlaunastjórnunarkerfið nær til alls starfsfólks.

Tilgangur með jafnlaunastjórnunarkerfi er að tryggja að allt starfsfólk Vegagerðarinnar njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að óútskýrður kynbundinn launamunur sé aldrei hærri en 2,5%. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu rökstuddar og í samræmi við gildandi kjara- og stofnanasamninga. Komi óútskýrður kynbundinn launamunur í ljós skal honum útrýmt þannig að starfsfólk fái greitt fyrir störf út frá verðmæti þeirra óháð kyni.

Vegagerðin skuldbindur sig til að:

  • Innleiða vottað jafnlaunastjórnunarkerfi sem byggist á staðlinum ÍST 85, skjalfesta og viðhalda með eftirliti, viðbrögðum og stöðugum umbótum.
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum, kjara- og stofnanasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega hlítni við lög.
  • Flokka störf út frá þeim kröfum sem störf gera og framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort óútskýrður kynbundinn launamunur sé til staðar.
  • Kynna starfsfólki niðurstöður launagreiningar sem er til úttektar nema persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.
  • Framkvæma innri úttekt á öllum útgefnum skjölum sem tilheyra jafnlaunastjórnunarkerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
  • Framkvæma rýni stjórnenda árlega þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
  • Birta stefnuna á innri vef og kynna hana öllu starfsfólki.
  • Stefnan sé aðgengileg almenningi á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Jafnlaunastefna er jafnframt launastefna. Mannauðsstjóri er fulltrúi jafnlaunastjórnunarkerfis og skal starfsfólk leita til hans með athugasemdir eða fyrirspurnir.   

 Birt á vef 25. maí 2021