• Opin náma við vegamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar

Námuskrá

Vegagerðin heldur námuskrá þar sem eru skráðar upplýsingar um efnisnámur á Íslandi. Í námukerfinu eru skráðar námur á landinu óháð því hvaða námurétthafi hefur tekið efni úr námunni. Í námuskránni eru birtar ýmsar upplýsingar um námur m.a. nafn og númer námu, efnisgerð og staða frágangs. Námurnar eru birtar á korti á vefslóðinni http://namur.vegagerdin.is/. Þar er hægt að sjá staðsetningu námanna bæði á korti og loftmynd. Til að sjá allar námur þarf að vekja þær upp undir flipanum þekjur. Með því að smella á námupunktinn er vakin upp tafla með helstu upplýsingum um námuna og niðurstöðum rannsókna á steinefnum námunnar (pdf skjal). 


Frágangur efnistökusvæða

Á fundi yfirstjórnar Vegagerðarinnar þann 15. desember 2003 var samþykkt tillaga um gerð langtímaáætlunar fyrir frágang eldri náma. Áætlunin gerði ráð fyrir að ganga skyldi frá öllum námum sem ekki væru í notkun og skyldi þeirri vinnu vera lokið á árinu 2018. Auk þess leggur Vegagerðin áherslu á að ganga með fullnægjandi hætti frá námum sem opnaðar eru í tengslum við vegagerð um leið og verki er lokið ef ekki er þörf á frekari efnistöku í náinni framtíð.

Ítarlegar leiðbeiningar um námufrágang og uppgræðslu námusvæða eru í vefritinu namur.is. Í vefritinu eru auk þess upplýsingar um fjölmarga þætti sem varða undirbúning efnistöku úr námum svo sem um ferli leyfisveitinga.

Vegagerðin hefur verið í samstarfi við Umhverfisstofnun um frágang efnisnáma. Eftirlitsmaður Umhverfisstofnunar skoðar allar námur þegar gengið hefur verið frá þeim og ef frágangurinn er fullnægjandi að mati stofnunarinnar gefur hún út vottorð því til staðfestingar. Staða frágangs á námum er skráð í námukerfi Vegagerðarinnar og vottun Umhverfisstofnunar einnig.