Umsóknir vegna hafnargerðar og sjóvarna

Fimm ára samgönguáætlun 2023 – 2027.
Vegagerðin skal samkvæmt hafnalögum nr. 61/2003 og lögum um sjóvarnir nr. 28/1997 vinna tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir og sjóvarnir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs sbr. lög nr. 33/2008 um samgönguáætlun.

Nú er komið að því að hefja undirbúning að næstu fimm ára áætlun, þ.e. samgönguáætlun 2023 – 2027.

Kostnaðarþátttaka ríkisins í hafnarframkvæmdum í áætlun verður eins og kveðið er á um í 24. gr. hafnalaga nr. 61/2003 með síðari breytingum.  Óskað er eftir umsóknum um öll verkefni sem til greina kemur að ráðast í að mati hafnarstjórnar.

Við gerð áætlunar verður endurskoðuð núverandi samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 og bætt við hana áætlun um það sem framkvæma skal á árinu 2025-2027. Ef einhverjar breytingar eru áætlaðar m.v. núgildandi samgönguáætlun, þarf að skilgreina það á umsóknarblaði, annars er nóg að senda inn tillögur fyrir árið 2025-2027.  Tillaga að nýrri samgönguáætlun verður væntanlega lögð fram á Alþingi næsta vetur. 

Umsókn um ríkisframlög til neðantalinna verkefna á næsta áætlunartímabili skal senda til Vegagerðarinnar fyrir 1. maí 2022.  Æskilegast er að senda umsóknina í tölvupósti til fgi@vegagerdin.is.
Framlög úr ríkissjóði til hafnargerðarverkefna er heimilt að veita hafnasjóðum/ höfnum sem reknar eru skv. 1. og 2. tölulið 8. hafnalaga nr. 61/2003. Hafnargerðarverkefni sem heimilt er að styrkja eru talin upp í 24. gr. hafnalaganna og nánar skilgreind í IV kafla reglugerðar um hafnamál nr. 326/2004. Hvort hafnarsjóðir falli undir a), b) eða c) staflið 24. greinar ræðst af viðmiðum sem þar eru tilgreind um tekjur hafnarsjóðs, verðmæti landaðs afla og vöruflutningum sem um höfnina fara.

Lýsa skal hverju einstöku verkefni og gefa upp helstu kennistærðir. Leggja skal fram viðskiptaáætlun fyrir viðkomandi verk þar sem fram koma áætlaðar tekjur og annar ávinningur af framkvæmd auk rekstrarkostnaðar fyrir hafnarsjóð og sveitarfélagið í heild. Þar skal einnig lýsa áætlun heimamanna um fjármögnun heimahluta og gefa upplýsingar sem sýna fram á að hafnarsjóðurinn hafi nýtt alla kosti sína til tekjuöflunar svo að ríkisframlag raski ekki samkeppni við aðrar hafnir. 

Staðfesting eldri verkefna í hafnargerð:

Staðfesta þarf eldri verkefni sem eru á gildandi samgönguáætlun og einnig verkefni sem kunna að vera ólokin svo fremi að þau séu styrkhæf sbr. hér að ofan. Ef verkefnin eru ekki staðfest verður litið svo á að viðkomandi hafnarsjóður sé hættur við framkvæmd þeirra. 

Umsókn um framlag til frumrannsókna:

Gera skal grein fyrir óskum um öldufarsreikninga, líkantilraunir og aðrar frumrannsóknir vegna hafnargerðar svo að hægt sé að meta þörf og ávinning af umbeðnum frumrannsóknum. 

Umsókn um framlag til sjóvarna:
Gefinn er kostur á að sækja um framlag til sjóvarna vegna flóðahættu eða landbrots af völdum ágangs sjávar. Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru mannvirki eða menningarminjar njóta forgangs við gerð sjóvarna. Vakin er athygli á að í 5. gr. sjóvarnalaga nr. 28/1997 er kveðið á um að landsvæði sem verja á, svo og varnarmannvirkin sjálf, hafi fengið meðferð samkvæmt skipulagslögum. Allar ábendingar og óskir sem berast frá sveitarfélögum um staði þar sem mannvirki eða önnur verðmæti eru í hættu af völdum sjávarflóða og landbrots verða skoðaðar, mat lagt á framkvæmdir og kostnað og verkefnum síðan forgangsraðað.

Meðfylgjandi eyðublöð er varða umsóknir um ofangreint eru á vef Vegagerðarinnar: http://www.vegagerdin.is/thjonusta/umsoknir-vegna-hafnargerdar-og-sjovarna/

Upplýsingum um vöruflutninga og heimaflota ber að skila til Vegagerðarinnar burt séð frá því hvort sótt er um framlag til framkvæmda eða ekki, samanber ákvæði í 9. grein hafnalaga.

Ef einhverjar spurningar eru varðandi efni þessa bréfs verður þeim svarað af undirrituðum á netfangi fgi@vegagerdin.is og í síma 522-1425.

Eyðublöð:
Umsókn um framlag er hér (word skjal).
Viðskiptaáætlun er hér (excel skjal).
Vöruflutningar er hér (excel skjal).
Heimafloti er hér (word skjal).