Fréttir
  • Suðurströndin við Reynisfjöru kort
  • Ölduhæð við suðurströndina 9. janúar 2017

Viðvörunarkerfi í Reynisfjöru og Kirkjufjöru

Viðvaranir sem byggja á kerfi sem Vegagerðin rekur með útreikningi á öldum nokkra daga fram í tímann

24.1.2017

Vegagerðin rekur kerfi þar sem spáð er fyrir um öldur upp að ströndinni nokkra daga fram í tímann. Mögulegt væri að nýta þessar upplýsingar til að koma upp viðvörunarkerfi í Reynisfjöru og Kirkjufjöru til að vara ferðamenn við. Hugsa mætti sér einhverskonar viðvörun með áberandi ljósum t.d. rauðum blikkandi ljósum ef búast má við hættlegum öldum. Eða að upplýsingar nýtist fyrst og fremst þeim sem eftirlit myndu hafa með fjörunum lögreglu og/eða björgunarsveitum. 

Fyrst þarf þó að að ákveða á hvers verksviði vinna við verkefni sem þetta ætti að vera, hvaðan fjármagn ætti að koma o.s.frv. Kerfið sem byggja má á er til staðar hjá Vegagerðinni og því er vakin athygli á þessu máli, en þróun og uppsetning á kerfi einsog hér um ræðir til að vara ferðamenn við þessari hættu er ekki beint á verksviði Vegagerðarinnar. Rétt einsog annað verður það ekki heldur unnið án þess að sérstakt fjármagn fáist til þess.

Ekki er þörf að minna á hættuna sem skapast í briminu í þessum fjörum sem leitt hefur til banaslysa. Eðlilega er það stórfenglegt brimið sem dregur fólk að ströndinni, það sjónarspil sem á sér stað þegar þung alda brotnar á strönd og klettum. Hættan af briminu fer saman við sjónarspilið, því meira og þyngra sem brimið er því meira er aðdráttaraflið.

Því getur verið æskilegt að koma upp viðvörunarkerfi þar sem varað er við hættulegum aðstæðum, kerfi sem getur metið hættustigið hverju sinni. Það þarf að finna út við hvaða aðstæður brim og öldugangur er hættulegur og við hvaða aðstæður það er síður hættulegt. Ölduhæð og öldulengd ráða mestu um það hversu hættulegt brimið er en sjávarstaða hefur líka áhrif. Til þess að ná því að spá fyrir um það hvort aðstæður verði hættulegar þarf að reikna ölduna upp að ströndinni.  Síðan eru ölduhæð og öldulengd skoðuð og borin saman við ákveðin áhættumörk sem eftir er að þróa.

Mögulegt er að þróa slíkt kerfi innan kerfisins Veður og sjólag sem rekið er af Vegagerðinni, þar sem öldur af hafi verða reiknaðar upp að ströndinni með hugbúnaði nokkra daga fram í tímann.

Til að reikningar öldunnar upp að ströndinni verði sem nákvæmastir er nauðsynlegt að gerðar verði góðar dýptarmælingar framan við ströndina þar sem lögð verði áhersla á að ná þeim botnformum sem hafa áhrif á ölduna.

Á þessu stigi er ekki ljóst hvort að báðar fjörur séu jafn útsettar fyrir öll veðurfarsskilyrði.

Hægt er að hugsa sér mismunandi not af slíku kerfi.  Í fyrsta lagi má hugsa sér að viðvörunin sé eingöngu fyrir löggæslu eða aðra sem hafa eftirlitsskyldu í fjörunum.  Þannig vissu þessir aðilar með dags eða nokkurra daga fyrirvara að aðgæslu verði þörf.  Í öðru lagi má hugsa sér að einhverskonar rauð ljós blikki á stöðum þar sem ferðamenn koma að þessum fjörum þegar aðstæður eru hættulegar.  Ef að það gengur upp að skilgreina mismunandi stig hættu má hugsa sér að við ákveðnar aðstæður blikki eitt rautt ljós en við aðrar fleiri rauð ljós. Þá er hægt að hugsa sér annars konar fyrirkomulag á viðvörunum.

Eins og áður sagði eru þessar hugmyndir um viðvörunarkerfi sem byggir á ölduspákerfi Vegagerðarinnar settar fram til að kanna hvort einhverjir utan stofnunarinnar hafi áhuga og tök á að vinna áfram að slíku verkefni.