Fréttir
  • Spá um umferðina
  • Umferðin í apríl - graf

Minni umferð í apríl

enn dregur jafnt og þétt úr umferð

2.5.2011

Í apríl reyndist umferðin á 16 völdum talningarstöðum á Hringvegi tæpum sex prósentum minni en í sama mánuði í fyrra. Eldgosin í Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli hafa áhrif í þá veru að umferð dregst verulega saman í apríl mánuði 2011 á Suðurlandi. Hinsvegar eykst umferð í apríl á Norðurlandi og Austurlandi. 

Eigi að síður lítur út fyrir með sama áframhaldi að samdráttur verði mjög mikill í umferðinni í ár og gæti orðið ríflega átta prósenta samdráttur. Umferðin í sumar mun þó mestu ráða um það.

Páskar voru í lok apríl í ár en í byrjun apríl á síðasta ári. Það eitt og sér hefði átt að auka lýkur á því að meðalumferð í apríl 2011 yrði meiri en árið 2010. Það gerðist hins vegar ekki. Eins og áður hefur komið fram í fréttum af umferð, spila eldgosin á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli hér stórt hlutverk þ.e. á síðast ári jókst umferðin gríðarlega í þremur mælipunktum á Suðurlandi, í mars og apríl, samanber meðfylgjandi töflu, þannig að telja verður eðlilegt að talsverður afturkippur komi umferðina nú í ár á þessu svæði. Þessu til viðbótar berst engin umferð frá Landeyjarhöfn, þar sem hún hefur verið lokuð síðan um miðjan janúar í ár.

Umferð dregst mest saman á Suðurlandi milli mánaða eða 19,5%.

Í fyrsta sinn frá áramótum mælist aukning innan einstakra svæða þ.e. á Norðurlandi um tæp 6% og á Austurlandi um 11%, en sú aukning dugar ekki til að hífa vegið meðaltal upp fyrir núllið þegar öll svæðin eru tekin saman.

Þegar horft er á alla talningastaði og tímabilið frá áramótum, hefur umferð og akstur (en akstur er viðmið Vegagerðarinnar sem er meðalumferð x lengd vegkafla) verið neikvæður allt þetta ár.

Uppsöfnuð umferð frá áramótum reiknast nú 8,5% og akstur um 10,1% minni en fyrir sama tímabil árið 2010.

 

 Samanburður

 

Horfur (spá) út árið 2011 eru svipaðar og um síðustu mánaðarmót, þegar horft er til fjögurra fyrstu mánaða ársins eru enn lýkur til þess að rúmlega 8% samdráttur verið í akstri þetta árið. Það verður að teljast verulegt sé tekið mið af aksturstölum alveg frá árinu 1975. Ekki hefur mælst viðlíka samdráttur í aksturstölum Vegagerðarinnar, verði þessi samdráttur niðurstaðan.

Brátt fer í hönd sumarumferðin á landinu öllu, og reikna má með að rúmlega 50% af akstri á þjóðvegakerfinu fari fram á 40% hluta ársins eða 5 mánaða tímabili frá maí til og með september ár hvert. Þetta tímabil er því mjög afgerandi í þróun umferðar á landinu. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framhaldinu þar sem næstu 2-3 mánuðir munu segja til um með nokkurri vissu hvort horfur um 8% samdrátt, í akstri, verði að ræða nú í ár.

 

Talnaefni og gröf

 

Athugið að umferðartölur fyrir árið 2011, eru birtar með fyrirvara.