Fréttir
  • Samanlagður akstur í höfuðborginni

Svipuð umferð á höfuðborgarsvæðinu og árið 2006

umferð á höfuðborgarsvæðinu dregst saman og er svipuð og árið 2006

1.3.2011

Umferðin á þremur viðmiðunarstöðum á höfuðborgarsvæðinu var minni í febrúar 2011 en í febrúar 2010. Samdrátturinn í febrúar er þó töluvert minni en samdrátturinn í janúar. Umferðin í byrjun árs á þessu svæði er svipuð og hún var árið 2006. 

Spá Vegagerðarinnar út frá þessum tölum um umferðina út allt árið, með öllum fyrirvörum, hljóðar upp á samdrátt sem næmi u.þ.b. 2,5 prósentum. Margt getur þó breytt þessu, þróun bensínverðs og veðurfar til dæmis.

Heldur dró úr akstri í febrúar 2011 á þremur viðmiðunarstöðum innan höfuðborgarsvæðisins, borið saman við sama mánuð árið 2010 eða um 2,7 prósent. Það er þó mun minni samdráttur en var á milli janúarmánaða, en þá var hann 3,9 prósent. Eins og áður hefur komið fram í fréttum Vegagerðarinnar var samdráttur milli janúarmánaða að stórum hluta sökum miklis samdráttar á Hafnarfjarðarvegi. Í nýliðnum febrúar hefur akstur um Hafnarfjarðarveg aftur á móti aukist hlutfallslega mest þótt enn sé samdrátturinn mestur á þeim vegi, borinn saman við árið 2010, samanber töflu hér efst í skjali með fleiri línuritum.

Á þremur mælipunktum dregst umferð saman, um Hafnarfjarðarveg minnkar umferðin um 5,1 prósent, um 1,7 prósent á Reykjanesbraut og á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku um 1,6 prósent. Meðalumferðin í febrúar um þessa þrjá staði er nú litlu meiri en hún var árið 2006.

Uppsafnaður samdráttur frá áramótum er 3,3 prósent, borinn saman við árið 2010.

Miðað við þessar forsendur gefa spár Vegagerðarinnar vísbendingar um (þegar mið er tekið af árunum 2005 - 2010) að stefnt geti í 2,5% samdrátt yfir árið á höfuðborgarsvæðinu. Það skal enn ítrekað og á það minnt að um spá er að ræða. Margir þættir geta haft áhrif um framhaldið. Veðurfar og bensínverð ráða þar miklu um.

Í ljósi reynslunnar skal það tekið fram að aksturstölur fyrir árið 2011 eru órýnd gögn, sem geta tekið breytingum þegar árið er gert upp.

 

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817