Fréttir
  • Skýrsla um malbik á höfuðborgarsvæðinu 2020

Malbik stóðst ekki kröfur

Hvorki kröfur um holrýmd né um viðnám

6.10.2020

Malbik sem lagt var á nokkra kafla á höfuðborgarsvæðinu í sumar, þar á meðal á Kjalarnesi, stóðst ekki kröfur sem til þess eru gerðar í útboði Vegagerðarinnar og munar miklu. Kröfur um holrýmd stóðust ekki og heldur ekki kröfur um viðnám að útlögn lokinni. Þetta er niðurstaða fyrstu rannsóknar á malbikskjörnum frá fimm köflum sama útboðs. Sýni voru rannsökuð hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hjá VTI í Svíþjóð. Frekari rannsóknir fara nú fram.

Krafa Vegagerðarinnar er sú að holrýmd skuli liggja á bilinu 1% til 3%. Niðurstöður rannsókna á borkjörnum úr vegi sýna að holrýmd sé allt niður undir 0,1% og framleiðsluniðurstöður sýna holrýmd 0,1% upp í 0,5%. 

Hemlunarviðnámsmælingar kaflanna, utan eins, sýna að þeir uppfylla ekki kröfur Vegagerðarinnar um lágmarks hemlunarviðnám, sem hefur gildið 0,5.

Kaflarnir fimm eru á Reykjanesbraut, Bústaðavegi, Sæbraut, Kjalarnesi og Gullinbrú. Eini kaflinn sem stóðst kröfur um viðnám er á Sæbraut, aðrir kaflar hafa verið fræstir og lagt yfir þá aftur nýtt malbik sem stenst kröfur. Undanskilinn er kafli á einni akbraut á Reykjanesbraut sem er enn til rannsóknar og verður líklega einnig fræstur og yfirlagður upp á nýtt.

Þetta eru fyrstu niðurstöður rannsókna sem standa enn yfir. Rannsóknum verður framhaldið hjá Nýsköpunarmiðstöð, VTI, Vegagerðinni og hjá malbiksframleiðendum.

Skýrsluna má finna á heimasíðu Vegagerðarinnar.  

Beint á skýrsluna .