Fréttir
  • Á björtum, köldum og stilltum dögum eykst svifryk til muna við umferðarþungar götur borgarinnar. Mynd/Baldur Kristjánsson

Draga þarf úr nagladekkjanotkun

Rannsókn á svifryki á höfuðborgarsvæðinu

25.11.2020

Í köldu og stilltu veðri líkt og hefur verið í höfuðborginni undanfarið myndast aðstæður sem auka líkur á svifryki. Í rannsóknarskýrslunni; Losun svifryks frá gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu – ferlar og líkan, sem styrkt var af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar er notast við NORTRIP líkanið til að spá fyrir um svifryk vegna bílaumferðar og fá vísbendingar um hvað þurfi að gera til að sporna við svifryksmengun. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er sú að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun en næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.

NORTRIP líkanið (NOn-exhaust Road TRaffic Induced Particle emission) var þróað á Norðurlöndum en það spáir fyrir um um hlut svifryks í andrúmslofti vegna bílaumferðar með því að líkja eftir ferlum gatnasvifryks.

Verkefnið var unnið á tímabilinu 1. ágúst 2019 til 1. júlí 2020 en lokaskýrslu var skilað til Vegagerðarinnar í sumar.

Skýrslan var unnin af Brian C. Barr, meistaranemanda við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands en verkefnastjóri var Hrund Ó. Andradóttir, prófessor við umhverfis- og byggingaverkfræðideild HÍ. Brian flutti fyrirlestur um efni skýrslunnar á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar haustið 2019.

Lokaskýrsluna má finna hér. 

Lokaverkefni Brian C. Barr má finna hér.

Tekin voru saman gögn um veðurfar, magn umferðar, samsetningu umferðar og ástand götuyfirborðs við Kauptún í Garðabæ á tímabilinu október 2017 til apríl 2018. NORTRIP líkanið tímasetti vel gráa daga þegar svifryk fór yfir heilsuverndarmörk en þó var svifrykið almennt séð ofmetið í niðurstöðum líkansins og því þarf að túlka þær sem leiðbeinandi.

Næmnigreining benti til að nagladekkjanotkun spili lang stærstan þátt í myndun svifryks frá umferð í borginni en aðrir áhrifaþættir eru; tegund vegyfirborðs, umferðarmagn, umferðarhraði og vegþjónusta eins og söltun og skolun.

Líkanið gefur til kynna að hlutur þungaumferðar í svifryksmyndun sé lítill og að götuþvottur sé óskilvirk aðferð. Hins vegar er þessi niðurstaða um þvottinn í ósamræmi við erlenda reynslu og rannsóknir og frekari skoðun nauðsynleg.

Vegraki er samkvæmt rannsókninni mikilvægasta veðurbreytan þegar kemur að myndun, eyðingu og uppþyrlun svifryks.

Beita þarf skammtíma- og langtímaaðgerðum

NORTRIP líkanið gefur vísbendingar um hvað þurfi til að ná langtíma markmiði íslenskra stjórnvalda um að enginn dagur fari yfir skilgreind heilsufarsmörk fyrir svifryk af völdum umferðar.

Miðað við núverandi umferð er talið að draga þurfi úr hámarks nagladekkjanotkun á miðjum vetri úr 46% niður í 15%. Þess má geta að lægsta meðalhlutfall nagladekkja á götunni mældist 23% veturna 2011-2012 og 2013-2014, og hafði þá lækkað úr 42% á 10 árum. Mælingar gefa hins vegar til kynna að svifryk hafi farið um sjö sinnum yfir heilsuverndarmörk þegar nagladekkjanotkun var í lágpunkti.

Í skýrslunni er tekið fram að mikilvægt sé að beita bæði langtíma- og skammtímaaðgerðum til að draga úr svifryki. Bent er á nokkrar skammtímaaðgerðir:

  • Með því að minnka umferð um helming á gráum dögum, til dæmis með því að banna notkun allra bíla sem enda á sléttri (eða odda-) tölu og lækka hámarkshraða um 15km/klst. ætti að vera hægt að lækka styrk svifryks um helming á gráum dögum.
  • Með því að bleyta götur á þurrkatíma og draga úr umferð um 10% væri hægt að lækka styrkleika svifryks um 35%.

Skammtímaaðgerðir einar og sér koma ekki í veg fyrir gráa daga. Því þarf langtímaaðgerðir eins og að:

  • draga úr fjölda bíla um 15%
  • lækka hlutfall bíla á nagladekkjum niður í 20%.
  • auka hörku steinefnis í slitlögum.

Stofnvegir þvegnir þrisvar á ári

Vegagerðin er veghaldari stofnvega á höfuðborgarsvæðinu á borð við Kringlumýrarbraut, Sæbraut, Miklubraut, Hringbraut og Reykjanesbraut, en svifryk er mest nálægt stórum umferðaræðum.

Þessar götur eru þvegnar reglulega yfir árið. Samkvæmt Bjarna Stefánssyni forstöðumanni umsjónardeildar Suðursvæðis Vegagerðarinnar voru göturnar þvegnar þrisvar í ár, í vor, sumar og haust. Þá er Vegagerðin í samstarfi við Reykjavíkurborg um að rykbinda göturnar sérstaklega þegar stefnir í að svifryk verði yfir mörkum. Reykjavíkurborg hefur þá frumkvæði og kallar út verktaka þegar aðgera er þörf.

Til gamans má geta að hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefnum loftgæði.is

Opnað verður fyrir umsóknir um styrki úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar í byrjun næsta árs.