Um Samgöngusáttmálann

Sáttmáli um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu

Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þann 26. september 2019. 

Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær. Hinn 29. júní sl. voru lög nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Með þeim fékk fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að stofna fyrirtækið. Betri samgöngur ohf. var stofnað 2. október það ár.  

Betri samgöngur ohf hafa yfirumsjón og eigendaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkjanna, auk þess að tryggja fjármögnun.

Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.

Vegagerðin annast undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir á vegum Samgöngusáttmálans í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. 

Fjárfesting upp á 120 milljarða

Á árunum 2020-2034 verður ráðist í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Mengun vegna svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda hefur stóraukist. Ef fram heldur sem horfir og ekkert yrði að gert mun bílaumferð aukast um að minnsta kosti 40% á næstu 15 árum. Til að mæta þessu er nauðsynlegt að flýta samgönguframkvæmdum.

Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu er 120 milljarðar. Ríkið mun leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum króna. Hún verður tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins.

Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, þ.e. vegaframkvæmdir og stokka, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári. Betri samgöngum ohf. er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur, annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.

Markmið Samgöngusáttmálans

Greiðari samgöngur og fjölbreyttir ferðamátar

Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Kolefnislaust samfélag

Stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum ríkis og sveitarfélaga um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag með eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum, bættum innviðum fyrir vistvæna samgöngumáta og hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.

Aukið umferðaröryggi

Stuðla að auknu umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum.

Samvinna og skilvirkar framkvæmdir

Tryggja skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð verkefnisins, m.a. með því að skilgreina samstarfsform, kostnaðarskiptingu, ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir.

Fyrirmyndir í erlendum samgöngusáttmálum

Samgöngusáttmálinn á sér fyrirmynd í sambærilegum sáttmálum s.s. Þrándheimi, Stafangri, Haugasundi, Kristjánssandi, Namsós og Trönsberg og einnig í Svíþjóð.