Fréttir
  • Fjöldi hraðakstursbrota hefur vaxið samhliða vaxandi umferð og vegabótum. Undantekningar eru árin eftir bankahrun og árið 2020 þegar erlendum ferðamönnum fækkaði vegna Covid-19.
  • Fjöldi brota sem skráð voru á stafrænar hraðamyndavélar, árin 2008-2021.
  • Fjöldi hraðakstursbrota á stafrænar hraðamyndavélar 2019-2021, greint eftir mánuðum.
  • Ársskýrsla umferðaröryggisáætlunar 2021.

Yfir 40 þúsund hraðabrot skráð með sjálfvirku hraðaeftirliti árið 2021

Úr ársskýrslu um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar

16.9.2022

Hæsti hraði sem mældist með sjálfvirku hraðaeftirliti árið 2021 var 166 km/klst. Yfir fjörutíu þúsund hraðabrot voru skráð það ár og þar af um 19 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Átta nýjar meðalhraðamyndavélar voru teknar í notkun við árið 2021. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu 2021 um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar.

Ársskýrslan greinir frá sértækum aðgerðum umferðaröryggisáætlunar en meðal verkefna er framkvæmd sjálfvirks hraðaeftirlits. Í skýrslunni eru teknar saman helstu tölur varðandi slíkt eftirlit fyrir árið 2021.

Stafrænar hraðamyndavélar sem eru í notkun á landinu eru 22 talsins og eru notaðar á 28 mælistöðum fyrir sjálfvirkt hraðaeftirlit. Mælistaðirnir eru fyrst og fremst á Hringvegi, í jarðgöngum, á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Vegagerðin sér um almennan rekstur myndavélanna og viðhald eldri mælistaða. Hún sér einnig um að láta kvarða myndavélarnar og sinnir almennu viðhaldi þeirra. Fyrstu stafrænu hraðamyndavélarnar voru teknar í notkun árið 2007 og hafa þær elstu því verið virkar í 15 ár.

Árið 2021 voru að auki teknar í gagnið átta myndavélar sem notaðar eru fyrir meðalhraðaeftirlit. Fjórar á Grindavíkurvegi og fjórar í Norðfjarðargöngum.

Hraðakstursbrot eru skráð í málaskrá lögreglu en árið 2021 voru skráð 40.420 brot sem eru töluvert fleiri en árið á undan þegar umferð var óvenju lítil vegna heimsfaraldurs Covid-19. Fjöldinn er hins vegar í takti við þróunina sem var árin fram að því. Árið 2021 skráðu stafrænar hraðamyndavélar að meðaltali um 111 brot á dag.

Flest brotin voru skráð á vélarnar á höfuðborgarsvæðinu eða 19.001 brot og næstflest voru tekin á vélar á Suðurlandsvegi, yfir 5.000 brot. Flest brot voru skráð á seinni hluta árs eða frá ágúst til nóvember en fæst í janúar. Sá ökumaður sem ók hraðast samkvæmt skráningu hraðamyndavéla var á 166 km/klst á Suðurlandsvegi.

Myndavélar á höfuðborgarsvæðinu mældu flest hraðakstursbrot á svæðum þar sem hámarkshraði var 60 km/klst, eða 10.694 brot. Þar af voru flest brot á Sæbraut og næstflest á Hringbraut og Breiðholtsbraut. Brot þar sem hámarkshraði er 80 km/klst voru alls 3.981. Þau áttu sér flest stað á Vesturlandsvegi í póstnúmeri 110. Þar sem hámarkshraði er 30 km/klst áttu flest brot sér stað í Skeiðarvogi.

Á landsvísu, þar sem hámarkshraðinn var 70 km/klst óku flestir brotlegir á milli 81-90 km/klst eða 52% allra. Flest þeirra brota þar sem mældur hraði var yfir 111 km/klst. áttu sér stað í Fáskrúðsfjarðargöngum.

Þar sem hámarkshraðinn var 90 km/klst óku flestir brotlegir á milli 101-110 km/klst eða 53%. Þegar litið er til hópsins sem keyrði yfir 121 km/klst voru lang flest brot skráð á vélar á Suðurlandsvegi eða 76% slíkra brota.

Nánari upplýsingar og gröf má finna í ársskýrslunni.