Fréttir
  • Á Fagradal 28.3.2023
  • Á Fagradal 28.3.2023
  • umferdinl.is

Vetrarfærð og lokanir

slæm spá á Austurlandi næsta sólarhringinn

29.3.2023

Vegalokanir eru á Suður- og Austurlandi og útlit fyrir erfiðar aðstæður og lokanir fyrirsjáanlegar áfram á Austurlandi í kvöld og á morgun þar sem spáð er ofankomu og slæmu veðri sérstaklega á Austurlandi. Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með á umferdin.is og með veðurspám.

Lokað er á milli Skóga og Víkur í Mýrdal en þar hefur verið hvasst, margir bílar festust við Pétursey í nótt og þurfti að opna skyndihjálparstöð. Unnið er að því að losa þá, unnið að hreinsun vegarins en reikna má með að sú leið opni þegar liður á daginn enda er veður þar að ganga niður. Næsta skoðun klukkan 12 í dag. Sunnan Vatnajökuls milli Skaftafells og Jökulsárlóns er einnig lokað vegna sérstaklega mikils vinds og vindhviða, þar fauk rúta af veginum í gær og nokkrir bílar einnig. Áfram er spáð miklum vindi og vindstrengjum á því svæði, þar er hálka og alls óvíst með hvenær tekst að opna þá leið. En það verður næst skoðað klukkan 13.

Fjarðarheiði og Vatnsskarð er lokað en á Fjarðarheiði festist mokstursbíllinn en verið er að koma að tækjum til að losa hann og verið að aðstoða ferðafólk. Á þessu svæði er útlitið næstu dægrin slæmt. Veður versnar í kvöld og má búast við snjókomu og hríðarveðri sérstaklega á fjallvegum í kvöld og áfram á morgun en þá verður úrkomuákefðin til fjalla mikil, jafnvel fram á föstudag. Þá má einnig búast við í kjölfarið hættu á snjóflóðum víða og gæti komið til vegalokana þess vegna.

Allar upplýsingar eru birtar jafnóðum á vefnum umferdin.is og þar má fylgjast með því hvenær næst verður hugað að opnun vega. En almennt lítur ekki vel út með opnanir á Austurlandi.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar bendir á að það verði  hvasst í Öræfum allt til morguns, einkum við Svínafell og Sandfell. Hviður eru þvert á veg, allt að 35-45 m/s. Á Fagradal og Fjarðarheiði er spáð vaxandi vindi með
hríðarveðri, einkum eftir kl. 18. Að mestu krapi á láglendi og hlánar á fjörðunum.

Myndirnar eru teknar við Grænafell á Fagradal og sýnir vel að það eru víða komin hálfgerð snjógöng og þegar síðan snjóar og skefur fyllast þau mjög fljótt.