Fréttir
  • Yfirborðsmerkingar.
  • Gufa og reykur frá málningarbílnum skemmir ekki bíla.
  • Yfirborðsmerkingar.

Vegmerkingar Vegagerðarinnar – nýtt myndband

Vegfarendur þurfa að sýna aðgát þegar unnið er við yfirborðsmerkingar á þjóðvegum landsins.

12.7.2019

Á hverju ári eru mörg hundruð kílómetrar af línum málaðar á vegi landsins. Vegfarendur þurfa að sýna sérstaka aðgát þegar vinna við yfirborðsmerkingar er í gangi á þjóðvegum landsins.

Til að minna fólk á að fara varlega hefur Vegagerðin gefið út stutt myndband um yfirborðsmerkingar vega og hvernig fólk skuli haga framúrakstri þegar ekið er fram á málningarbifreið og fylgdarbifreið.

„Of algengt er að fólk aki óskynsamlega í kringum þessa vinnubíla og því þótti okkur mikilvægt að koma upplýsingum á framfæri við almenning,“ segir Guðmundur Finnur Guðmundsson, verkefnastjóri á umsjónadeild Vestursvæðis sem kom að gerð myndbandsins.

Bifreiðin sem málar miðlínuna er nálægt miðju vegarins og þótt hún aki ekki mjög hratt þarf að hyggja að ýmsu við framúrakstur. Fylgdarbifreið fylgir málningarbifreiðinni. Nauðsynlegt er að taka framúr báðum bifreiðum í einu þar sem nýmáluð línan þarf tíma til að þorna og eyðileggst ef ekið er strax yfir hana. Athuga þarf að aka vel fram fyrir bifreiðina sem málar línurnar á veginn þar sem spjót stendur nokkra metra fram fyrir bifreiðina. Stranglega bannað er að fara inn á milli bifreiðarinnar sem málar línurnar og fylgdarbifreiðar.

„Við erum allt of oft að missa fólk á milli málningarbíls og fylgdarbíls,“ segir Guðmundur og bendir á að ekki einvörðungu skemmi það nýmálaða línuna heldur slettist málning einnig á bílinn sem ekur yfir línuna. Frá málningasprautu kemur gufa og reykur. Það þurfa ökumenn hins vegar ekki að óttast því það festist ekki á bifreiðum.

Mikil vinna felst í yfirborðsmerkingum. „Á sumrin eru þrír til fjórir bílar úti í einu. Oftar en ekki þarf að merkja vegi að nýju á hverju ári, sérstaklega þá vegi sem eru umferðarmiklir,“ segir Guðmundur.

En veit fólk hvað línurnar þýða? „Ég hef óþægilega oft á tilfinningunni að fólk sé ekki nógu meðvitað um það. Því er nauðsynlegt að fólk rifji það reglulega upp.“

https://youtu.be/evwhel8SKhg