Fréttir
  • Aflíðandi flái á nýjum vegi. Mynd: Marcin Kamienski

Vegir sem fyrirgefa

Umhverfi vega skiptir öllu máli

4.11.2016

Vegakerfið, bíllinn og ökumaðurinn skipta öllu máli varðandi umferðaröryggi. Bílar verða sífellt öruggari, ökumenn verða líka betri með öflugri kennslu og uppbyggilegum áróðri, og vegirnir verða einnig öruggari. Margt hefur verið gert í þeim efnum þótt mun meira sé ógert en stefnan er að vegir verði í auknum mæli þannig að þeir fyrirgefi ökumanni mistök.

Talað er um fyrirgefandi vegi, með betri bílum og öruggara vegakerfi er þannig stefnt að því að þótt ökumanni verði á þá eigi það ekki að leiða til bana eða þess að hann verði örkumla. Mörg lönd hafa tekið upp svo kallaða núllsýn í því sambandi og stefna að því að enginn látist í umferðinni þegar fram líða stundir.

Vegagerðin hefur þessa sýn einnig til hliðsjónar þegar horft er til umferðaröryggis. Í því ljósi er horft til umhverfis vega því einn stærsti flokkur slysa á Íslandi er útafakstur. Það er því afar mikilvægt að umhverfi vega sé þannig að vegurinn og umhverfið fyrirgefi útafaksturinn. Í því skyni er fyllt upp í skurði, stórir steinar og annað sem má aka á er fjarlægt og þar sem ekki verður öðru komið við er sett upp vegrið.

Skýr dæmi um muninn á því hvernig umhverfi vegar er og hvað það þýðir varðandi umferðarslys mátti sjá einn dag í nýliðnum októbermánuði, þegar með stuttu millibili fóru langferðabifreiðar út af í einni af fyrstu hálkum vetrarins.

Á Hellisheiði fóru bæði Strætó og rúta útaf á tiltölulega nýjum vegi án slysa á fólki, sjá hér frétt á mbl.is.  Sjá líka myndina sem fylgir þessari frétt hér fyrir ofan en hana tók Marcin Kamienski. Smellið á myndina til að stækka hana.

Þann sama dag fór rúta útaf á Mosfellsheiði þar sem aðstæður voru allt aðrar, sjá hér á vef ruv.is.  

Þarna skipti hönnun vegarins öllu máli og þar með umhverfi hans. Í tilviki nýs vegar á Hellisheiði varð sú hönnun fyrir valinu af hafa mjúka fláa, eða aflíðandi fláa, í stað þess að setja upp vegrið. Hinn mjúki flái skilaði rútunni útaf veginum á öllum hjólum, án þess að hún ylti. Vegurinn fyrirgaf útafaksturinn. Verr fór á Mosfellsheiðinni þar sem fláinn er mun brattari enda eldri hönnun þar sem ekki voru gerðar sömu kröfur og gerðar eru í dag.

Vegagerðin vinnur þó að því að forgangsraða stöðum þar sem mögulegt er að bæta fláa þannig hann verið meira aflíðandi og fyrirgefandi ellegar að setja upp vegrið. Á um 13.000 km vegakerfi er það stór biti að bæta allt kerfið og þess vegna er forgangsraðað og það fé sem til þessa fæst nýtt á sem bestan hátt.

Verkefnið er stórt og mun taka mörg ár að bæta öryggi vega á Íslandi en þessi tvö slys sýna svo ekki verður um villst að rétt hönnun vega sem tekur mið af umferðaröryggi skiptir sköpum. 

Frétt af ruv.isFrétt af mbl.is