Fréttir
  • Nemendur við Víkurskóla rannsaka breytingar á strandlínu og fjöru Víkurfjöru.
  • Allir nemendur Víkurskóla koma að þessu rannsóknarverkefni.
  • Mikil ánægja er með gjöf Vegagerðarinnar. Sigtin koma í góðar þarfir við rannsóknarstörf.
  • Víkurskóli er Geo-skóli en í því felst m.a. að nemendur vinna með sögu og jarðfræði nærumhverfisins.
  • Víkurverkefnið hófst í janúar á þessu ári og mun ná yfir nokkurra ára tímabil.

Vegagerðin gefur Kötlu jarðvangi og Víkurskóla sigti og hristara

 Vísindatækin notuð við rannsóknir í Víkurfjöru 

25.10.2021

Sigti og hristari úr eigu Vegagerðarinnar fengu nýtt hlutverk á dögunum þegar Katla jarðvangur og Víkurskóli í Vík fengu tækin að gjöf. Þau verða notuð við Víkurverkefnið, en það er rannsókn sem nemendur við Víkurskóla taka þátt í.  Hún gengur út á að rannsaka breytingar á strandlínu og fjöru í Víkurfjöru á næstu árum.

Fyrr á þessu ári flutti miðstöð Vegagerðarinnar í nýtt húsnæði í Garðbæ. Við flutning á rannsóknarstofu Vegagerðarinnar var ákveðið að finna tækjum og tólum sem ekki var lengur þörf fyrir nýjan stað þar sem þau kæmu að góðu gagni. Sigtin eru ónotuð og hristarinn í góðu standi.

Gjöfin kemur að góðu gagni

„Mikil ánægja er með gjöfina frá Vegagerðinni. Það verður frábært að nota sigtin og hristarann með krökkunum en helsti spenningurinn hjá þeim er að upplifa sig sem alvöru vísindafólk. Tækin verða notuð til að mæla mismunandi kornastærð jarðefna úr fjörunni en það hjálpar krökkunum að skilja hvað kornastærð er. Þau munu líka læra að setja upp kornastærðarkúrfur, sem geta gefið vísbendingar um ástand fjörunnar og aukið skilning þeirra á strandumhverfi, sér í lagi sandfjörum,“ segir Jóhannes Marteinn Jóhannesson, jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi.

Hann stýrir Víkurverkefninu í samstarfi við Kolbrúnu Hjörleifsdóttur, verkefnastjóra Geo-skóla Víkurskóla. Um er að ræða samstarfsverkefni Kötlu jarðvangs, Víkurskóla og Kötluseturs í Vík. Allir nemendur og flest allt starfsfólk Víkurskóla tekur þátt í rannsóknarverkefninu á einn eða annan hátt.

„Í rannsókninni hafa nemendur úr 5.-10. bekk það hlutverk að mæla upp sex snið Víkurfjöru, mæla kornastærðirnar í sandinum og taka ljósmyndir af formgerðum í fjörunni. Athuganir á kornastærðinni í fjörunni og formgerðum munu síðan gefa hugmyndir um orkustig strandarinnar og þannig fræðast nemendur um hið síbreytilega landslag fjara og hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á strandsvæði. Nemendur í 1.-4. bekk koma síðan til með að stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum og dýralífinu í Víkurfjöru og rannsaka rusl sem skolast þar á land,“ segir Jóhannes.

Einkenni, saga og jarðfræði nærumhverfisins 

Frá árinu 2017 hefur Víkurskóli verið einn af Geo-skólum Kötlu UNESCO Global Geopark.

„Í því felst að árlega vinna nemendur fjölbreytt verkefni í því augnamiði að tileinka sér og vinna með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda,“ segir Jóhannes.

Einnig er ætlunin að mæla fjörukambinn til að kanna hvort það mikla landbrot sem hefur orðið í Vík sé enn í gangi. 

„Mæling sniðanna gefur vísbendingar um hvort fjaran sé að byggjast upp eða ekki, ásamt því að reikna út rúmmálið sem hefur annað hvort bæst við fjöruna eða verið fjarlægt þaðan,“ segir hann.

Stefnt er að því að birta niðurstöðu mælinganna einu sinni á ári og er áætlað að þær verði til sýnis í sjóminjasafninu Hafnleysu við Kötlusetur. 

Frétt Kötlu jarðvangs um gjöf Vegagerðarinnar má sjá hér .