Fréttir
  • Veglínur á Vestfjarðavegi

Vegagerð í Gufudalssveit

engum þvingunum beitt

5.5.2020

Í tengslum við vegagerð á síðasta kafla Vestfjarðavegar um sunnanverða Vestfirði um Gufudalssveit hyggst Vegagerðin tengja Gufudalssveit og botn Djúpadals svo sem nauðsynlegt er. Það verður í báðum tilvikum gert með vegi með bundnu slitlagi og fyrir því liggja margar ástæður.

Líklegt er að verkið byrji á því að leggja bundið slitlag á núverandi Vestfjarðaveg í vestanverðum Gufudal, veg sem síðar myndi þá tengja býli í Gufudalssveit við Vestfjarðaveg. Þessi kafli mun því nýtast allri umferð um hann í 4-5 ár meðan á framkvæmdum stendur. Því yrði þessi vegagerð strax töluverð samgöngubót fyrir alla Vestfirði. Kaflinn mun einnig nýtast komi til þess að náma í Gufudal verði nýtt við framkvæmdirnar og tilheyrandi þungaflutninga. Nýr Djúpadalsvegur er nauðsynlegur til að tengja bæi í Djúpadal við nýjan Vestfjarðaveg og er jafnframt aðgengi að framkvæmdasvæðinu.

Vegagerðin telur að það yrði óhagkvæmt að skilja þessa tvo kafla eftir eina á svæðinu sem malarvegi en óhagræði felst í því að þurfa að kalla til veghefil langa vegu fyrir þessa 10 km sem um ræðir.

Fram kom í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins þann 4. maí að Vegagerðin hefði beitt Reykhólahrepp þvingunum til að velja Þ-H leið um Gufudalssveit í stað leiðar þvert yfir Þorskafjörð utanverðan. Þessi staðhæfing hefur verið sett fram áður en er alveg jafn ósönn nú og þá. Vegagerðin hefur engum þvingunum beitt en hefur hinsvegar talið sér skylt til að leggja allt fyrir hreppsnefnd Reykhólahrepps og allan almenning varðandi stöðu mála á þessu svæði. Vegagerðin hefur ekki fjárveitingavald en til þessa verks hafa verið teknir frá einir 7 milljarðar króna miðað við samgönguáætlun sem nu liggur fyrir Alþingi. Leið fyrir Reykjanes og yfir utanverðan Þorskafjörð eða leið með jarðgöngum undir Hjallaháls yrði mörgum milljörðum króna dýrari lausn. Það fé hefur ekki verið í sjónmáli og hefur Vegagerðin bent heimamönnum á að í slíku tilviki yrðu þeir að ræða við stjórnmálamenn og þá sem fjárveitingavaldið hafa. Engin þvingun felst í slíkri upplýsingu um stöðu mála, heldur raunsætt mat á stöðunni. Þess má geta að mismunur á kostnaði þessara mismunandi leiða nemur sömu upphæð og það kostar að gera veg um Dynjandisheiði að heilsársvegi.

Vegagerðin mun halda áfram að vinna að vegagerðinni um Gufudalssveit og vonast til þess að því verki ljúki farsællega á næstu árum vegfarendum öllum til hagsbóta.