Fréttir

Vegagerð á Holtavörðuheiði á fjórða áratugnum

Myndir teknar af Jóhanni Hjörleifssyni vegaverkstjóra

6.3.2020

Á fjórða áratug síðustu aldar starfaði Jóhann Bjarni Hjörleifsson vegaverkstjóri við vegagerð á Holtavörðuheiði. Hann tók ófáar myndir af starfinu og vinnubúðunum sem gefa skemmtilega innsýn í starf vegavinnuflokka Vegagerðar ríkisins á þessum tíma.

Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands er dóttursonur Jóhanns. Hann fann þessar myndir sem afi hans tók í albúmi í fórum móður sinnar, Dóru Jóhannsdóttur, og hefur veitt Vegagerðinni góðfúslegt leyfi til birtingar á þeim.

„Ættingjar mínir voru margir hverjir við störf hjá Vegagerðinni svo að okkur þykir sérstaklega vænt um þessar myndir vegna þess. Ég náði því meira að segja sjálfur sem sumarstarfsmaður 1982-1985, vann þá við viðgerðir á vegum og bróðir minn vann meðal annars sem sumarstarfsmaður við að reisa Skeiðarárbrú áratug fyrr. Pabbi var svo kúskur á sumrin með flokknum sem afi stjórnaði, það var þó löngu eftir að þessar myndir voru teknar,“ segir Gylfi en móðurbróðir hans, Sigurður Jóhannsson var vegamálastjóri í tuttugu ár.

Gylfi segir vegavinnuna á Holtavörðuheiði hafa verið móður hans og eldri systur hennar mjög minnisstæð. „Þær voru báðar með afa í för, mamma sem barn og systirin, Kristjana Elísabet, vann sem unglingsstúlka í mötuneytinu. Þær og pabbi töluðu oft um þessa tíma,“ segir Gylfi en móður hans, frænku og ömmu má finna á nokkrum myndanna.

Kennari, þingritari og vegaverkstjóri

Jóhann Bjarni Hjörleifsson fæddist að Hofsstöðum í Miklaholtshreppi 15. september 1893. Hann var sonur hjónanna Hjörleifs Björnssonar og Kristjönu Elísabetar Sigurðardóttur. Jóhann hlaut góða menntun, var gagnfræðingur frá Flensborg 1913 og búfræðingur frá Hólum 1914.

Hann var um nokkurra ára skeið mælingamaður hjá búnaðarsambandi Dalamanna og Snæfellinga, vann að mælingastörfum á sumrin en kenndi börnum og unglingum í Miklaholtshreppi á veturna.

Eftir að Jóhann flutti til Reykjavíkur var hann marga vetur þingskrifari, en vegavinnuverkstjóri og síðar umsjónarverkstjóri á sumrin frá árinu 1923. Hann var einn helsti hvatamaður að stofnun Verkstjórasambands Íslands. Hann veitti forstöðu og hafði kennslu á hendi á fyrsta verkstjóranámskeiðinu 1937 og lengi eftir það. Hann var ritstjóri „Verkstjórans“ fyrstu árin og síðan í útgáfunefnd. Hann eignaðist fjögur börn með fyrri konu sinni, Sigríði Sigurðardóttur, það voru Sigurður vegamálastjóri, Kristjana Elísabet sem lést aðeins ársgömul, Kristjana Elísabet og Dóra. Með seinni konu sinni, Sveinbjörgu Guðfinnu Kristinsdóttur, eignaðist hann Sigurð Kristinn og Grétu. Jóhann lést í október 1959.

Heimildir:

Tíminn 15. september 1953. Grein í tilefni af sextugsafmæli Jóhanns.

Íslenskar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965.