Fréttir
  • Undirgöng á Arnarnesi. Frá framkvæmdum í lok janúar 2023.
  • Undirgöng á Arnarnesi. Frá framkvæmdum í lok janúar 2023.
  • Undirgöng á Arnarnesi. Frá framkvæmdum í lok janúar 2023.
  • Undirgöng á Arnarnesi. Frá framkvæmdum í lok janúar 2023.
  • Undirgöng á Arnarnesi. Frá framkvæmdum í lok janúar 2023.

Undirgöng á Arnarnesi bæta umferðaröryggi

Opin og björt og liggja vel í landinu

21.2.2023

Ný undirgöng í gegnum Arnarnes fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verða opnuð fyrir umferð með vorinu. Um er að ræða mikla samgöngubót, enda er leiðin yfir Arnarnesið ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Gangandi og hjólandi vegfarendur þurfa hvorki að fara upp bratta brekku né þvera umferðargötu á leið um Arnarnesið þegar ný undirgöng verða komin í gagnið, sem eykur umferðaröryggi á þessum slóðum til muna. Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar, hefur haft umsjón með þessum framkvæmdum. Hún segir göngin þannig hönnuð að þau séu opin og björt og liggi vel í landinu.

„Við hönnunina var mikið lagt upp úr því að göngin væru aðlaðandi fyrir vegfarendur. Þau eru bæði stærri og bjartari en hefðbundin undirgöng. Á þaki þeirra er stórt ljósop sem hleypir dagsbirtunni beint inn í göngin og að auki verður sett ledlýsing í göngin, sem eru 7 metrar á breidd og 3 metrar á hæð,“ segir hún, en göngin eru um 27 metrar að lengd.

Í gegnum þau verða aðskildar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem tengjast inn á núverandi stígakerfi Garðabæjar. Til stendur að aðskilja stíga fyrri gangandi og hjólandi vegfarendur sitt hvoru megin ganganna meðfram Hafnarfjarðarveginum frá Kópavogi og að Hafnarfirði. Undirbúningur á því verkefni er þegar hafinn.

Vegagerðin og Garðabær vinna saman að þessum framkvæmdum, sem heyra undir Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með Samgöngusáttmálanum er m.a. að stuðla að greiðari samgöngum og fjölbreyttum ferðamátum á höfuðborgarsvæðinu, með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

„Stígakerfið er hannað í samræmi við hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar frá árinu 2019. Markmiðið með hönnunarleiðbeiningum er að tryggja ákveðið verklag við hönnun og gæði á öllum stígum sem heyra undir Samgöngusáttmálann,“ segir Katrín.

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að göngin yrðu opnuð fyrir umferð í janúar en á framkvæmdatímabilinu tók hönnun ganganna nokkrum breytingum, auk þess sem veður og kuldatíð setti strik í reikninginn. Eins og staðan er í byrjun árs lítur út fyrir að göngin verði opnuð með pompi og prakt í vor.

Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 1. tbl. 2023 nr. 723.   Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.