Fréttir
 • Umferð var hleypt á hinn nýja tvöfalda vegarkafla þann 24. nóvember. Mynd/Baldur Kristjánsson
 • Umferð var hleypt á hinn nýja tvöfalda vegarkafla þann 24. nóvember.
 • Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar gengu vel. Nú þegar er hafin vinna vinna við næsta áfanga milli Krýsuvíkurgatnamóta og Hvassahrauns.
 • Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar gengu vel. Nú þegar er hafin vinna vinna við næsta áfanga milli Krýsuvíkurgatnamóta og Hvassahrauns.
 • Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar gengu vel. Nú þegar er hafin vinna vinna við næsta áfanga milli Krýsuvíkurgatnamóta og Hvassahrauns.
 • Vegbrúin yfir Strandgötu.
 • Göngubrúin við Ásland hífð á stöpla sína 27. ágúst.
 • Göngubrúin við Ásland hífð á stöpla sína 27. ágúst.
 • Göngubrúin við Þorlákstún.

Tvöföld Reykjanesbraut í Hafnarfirði

30.12.2020

Fyrsta verkefni samgöngusáttmálans lauk í nóvember þegar framkvæmdum lauk við verkið Reykjanesbraut (41), Kaldárselsvegur – Krýsuvíkurvegur.

Umferð var hleypt á hinn nýja tvöfalda veg í Hafnarfirði frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót þann 24. nóvember. Framkvæmdin fólst í tvöföldun þessa 3,2 km kafla með byggingu nýrrar akbrautar sunnan núverandi vegar.

Framkvæmdin er merkileg fyrir þær sakir að þessi vegkafli er sá fyrsti sem klárast af þeim sem tilheyra Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins auk þess gert er ráð fyrir legu Borgarlínunnar undir Reykjanesbrautina við Strandgötu í framtíðinni.

Iðulega eru stór verk sem þessi vígð formlega af ráðherra og öðrum aðstandendum en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var ákveðið að fresta formlegri vígslu um sinn.

ÍSTAK var verktaki verksins en Mannvit sá um eftirlit. Verkáætlanir stóðust í stórum dráttum og hefur lítil sem engin töf orðið á afhendingu verksins þrátt fyrir óvenjulega tíma.

Helstu tölur í framkvæmdinni

Reykjanesbrautin á þessum kafla er með þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta með vegriðum báðum megin. Brautin var grafin niður um allt að fjóra metra á tveimur köflum; í fyrsta lagi á kaflanum við Ásland og í öðru lagi í gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir undirgöngin við Suðurholt. Hluti af framkvæmdunum var að breikka brúna yfir Strandgötu og byggja ný undirgöng á sama stað vegna tilkomu Borgarlínu. Gerðar voru nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut. Sú fyrri var reist milli Hvamma og Áslands til móts við Álftaás, sú seinni kom í stað undirganga við Þorlákstún.

Samhliða breikkun Reykjanesbrautar var ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni brautarinnar. Ný hljóðmön var gerð milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar til móts við Erluás og var göngustígurinn frá enda núverandi göngubrúar endurgerður. Hljóðmönin við Ásbraut til móts við Álftaás var hækkuð. Hljóðmanir við Hvamma voru endurgerðar og næst brautinni voru notuð jarðvegshólf til að ná fram betri hljóðvist. Við Suðurhvamm voru einnig reistir glerveggir ofan á möninni sem ná inn á Strandgötu og hljóðveggur var settur á norðurkant Strandgötubrúar. Þá var einnig settur hljóðveggur úr timbri meðfram Þúfubarði þar sem nú er girðing.

Veitufyrirtækin (HS veitur, Landsnet, Míla og Veitur) stóðu fyrir foráfanga til að færa lagnir úr vegstæði Reykjanesbrautar í endanlegar lagnaleiðir út fyrir eða í jaðar framkvæmdasvæðis.

Helstu magntölur

Jarðvinna og vegagerð­­­­­­­­ _______________________

Bergskeringar                                                33.000 m3 

Fyllingar í vegagerð                                   51.700 m3

Fláafleygar                                                  85.300 m3

Lagnaskurðir                                                 2.000 m

Ofanvatnsræsi                                              3.200 m

Styrktarlag                                                  23.800 m3

Burðarlag                                                    12.000 m3

Malbik                                                       141.000 m2

Kantsteinar                                                   6.400 m

Vegrið                                                            10.800 m

Götulýsing, skurðgröftur og strengur       6.400 m

Hljóðvarnir                    ______________________

Jarðvegsfyllingar í hljóðvarnir                   65.000 m3

Hljóðveggur við Suðurhvamm          150 m / 240 m2

Hljóðveggur við Strandgötubrú        146 m / 320 m2

Hljóðveggur við Þúfubarð                   84 m / 168 m2

Vegbrú yfir Strandgötu______________________

Mótafletir                                                    940 m2

Járnalögn                                                47.000 kg

Spennikaplar                                          10.000 kg

Steypa                                                           450 m3

Undirgöng við Strandgötu vegna tilkomu Borgarlínu_

Gröftur                                                     2.876 m3

Bergskering                                             1.285 m3

Mótafletir                                                  1136 m2

Járnalögn                                                65505 kg

Steypa                                                         476 m3

Göngubrú við Ásland      ______________________

Mótafletir                                                   220 m2

Járnalögn                                                5.900 kg

Steypa                                                         85 m3

Stálvirki                                                     28 tonn

Göngubrú við Þorlákstún            ________________

Mótafletir                                                   220 m2

Járnalögn                                                 6.000 kg

Steypa                                                         135 m3

Stálvirki                                                     28 tonn

Útboð og samningar

Vegagerðin bauð verkið út í febrúar 2019 og var það einnig auglýst á hinu evrópska efnahagssvæði (EES). Tilboð bárust frá fjórum verktakasamstæðum. Tilboð voru opnuð 19. mars 2019.

Bjóðandi Tilboð kr. Hlutfall Frávik þús.kr.

Suðurverk hf., Kópavogi/

Loftorka Reykjavík ehf., Garðabæ        

2.339.010.000          114,1 474.775
ÍAV hf., Reykjavík 2.335.329.064          113,9 471.094
Ístak hf., Mosfellsbæ     2.106.193.937          102,7 241.959
Áætlaður verktakakostnaður 2.050.000.000          100,0 185.765

Ellert Skúlason ehf., Reykjanesbæ/

Borgarvirki ehf., Mosfellsbæ/

GT Verktakar ehf., Hafnarfirði

1.864.234.693            90,9 0

Gengið var til samninga við Ístak hf. og var samningur undirritaður 3. maí 2019

Vegagerðin bauð út eftirlit með framkvæmdinni í febrúar 2019 og var það einnig auglýst á hinu evrópska efnahagssvæði (EES). Alls bárust fimm tilboð frá ráðgjafafyrirtækjum og voru tilboðin opnuð í tvennu lagi. Á fyrri opnunarfundi 26. mars 2019 var lesið upp hverjir skiluðu inn tilboðum. Á síðari opnunarfundi 2. apríl var lesin upp stigagjöf bjóðenda í hæfnismati og verðtilboð hæfra bjóðenda opnuð.  Allir bjóðendur uppfylltu kröfur í hæfnismati.

Bjóðandi Tilboð kr. Hlutfall Frávik þús.kr.
Verkís hf., Reykjavík                              59.240.860       109,7 24.477
Hnit hf. verkfræðistofa., Reykjavík        58.112.850       107,6 23.349
Strendingur ehf., Hafnarfirði                                   54.202.320       100,4 19.439
Áætlaður verktakakostnaður 54.000.000       100,0 19.237
VSÓ Ráðgjöf ehf., Reykjavík 42.975.672         79,6 8.212
Mannvit hf., Reykjavík 34.763.400         64,4 0

Gengið var til samninga við Mannvit hf. og var samningur undirritaður 3. maí 2019.

Af undirbúningi

Við áætlanir um lagningu Reykjanesbrautar vestan við Hafnarfjörð, sem gerð var í framhaldi af lagningu brautarinnar til Keflavíkur á síðustu öld var ávallt reiknað með að hún yrði tvöfölduð í framtíðinni. Vinna við tvöföldunina í Hafnarfirði hófst síðan upp úr aldamótum með frumdrögum og mati á umhverfisáhrifum á kaflanum frá Kaplakrika og suður fyrir Kaldárselsveg. Sá kafli kom svo til framkvæmda á árunum 2003-2005 þegar brautin var m.a. lögð upp fyrir kirkjugarðinn og mislæg gatnamót gerð við Kaldárselsveg.

Strax í framhaldi var ráðist í að undirbúa lagningu kaflans sem nú er nýlokið með tvöföldun vestur fyrir gatnamótin við Krýsuvíkurveg. Frumdrög og mat á umhverfisáhrifum voru gerð af verkfræðistofunni Hönnun (nú Mannvit) á árunum 2006-2008. Verkhönnun breikkunarinnar var síðan boðin út á haustmánuðum 2008 og var útboðshönnun verkfræðistofunnar Eflu í samstarfi við Studio Granda og Landslag lokið í árslok 2010.

Nýframkvæmdir í vegagerð lágu niðri að stórum hluta í kjölfar efnahagshrunsins. Var því öllum framkvæmdum frestað um sinn. Þrýstingur á tvöföldun Reykjanesbrautar fór hins vegar mjög vaxandi í Hafnarfirði er á leið, enda var brautin þá orðin fjölfarnasti einfaldi vegur landsins, slysahætta á gatnamótum var orðin óviðunandi og þverun gangandi og hjólandi vegfarenda hættuleg. Þá fór umferð einnig mjög hratt vaxandi til Suðurnesja með vaxandi byggð þar og fjölgun ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll.

Því fór svo að framkvæmdinni var skipt upp í þrjá áfanga til að dreifa kostnaði. Fyrst voru undirgöngin til móts við Suðurholt byggð árið 2013 sem tengdu saman byggðina norðan og sunnan brautar. Mislægu gatnamótin við Krýsuvíkurveg voru svo byggð árið 2017 að tilstuðlan þáverandi samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar. Loks var brautin tvöfölduð með tveimur göngubrúm og einum undirgöngum á undanförnu einu og hálfu ári og var sá hluti framkvæmdarinnar um tveir þriðju hlutar verksins. Þessi síðasti áfangi framkvæmdarinnar er hluti af samgöngusáttmálanum, sem er samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgönguinnviða á svæðinu, bæði samgöngumannvirkja og almenningssamgangna.

Verkframvinda

Verkið hófst strax í byrjun maí 2019 eftir undirskrift verksamnings. Verktaki byrjaði á að setja upp vinnubúðir við Tjarnarvelli og skipuleggja verkið. Hafist var handa við fyrsta áfanga sem miðaði að því að tvöfalda Reykjanesbraut frá Strandgötu til vesturs að Krýsuvíkurgatnamótum. Yfir hásumarið vann verktaki að því að hreinsa laust efni burt af klöpp í nýju vegstæði suðurakbrautar. Hafist var handa við að breikka brúna á Strandgötu og steypa suðurstöpul nýrrar göngubrúar við Þorlákstún. Í lok ágúst var byrjað á sprengingum við Hvaleyrarholt sem miðaði að því að lækka vegstæði Reykjanesbrautar og á sama tíma byrjaði smíði göngubrúa í Póllandi.

Um haustið hélt verktaki áfram að sprengja við Hvaleyrarholt og keyra það efni í fyllingar í nýju vegstæði suðurakbrautar. Á sama tíma fór fram lagnavinna í miðdeili Reykjanesbrautar og samhliða fram til jóla vann verktaki að því að leggja út styrktar- og burðarlag á kaflanum. Malbikuð voru tvö lög á suðurakbraut frá Krýsuvíkurgatnamótum að römpum að og frá Strandgötu  en beðið var að mestu með þriðja og síðasta malbikslagið til vorsins 2019. Vinna við breikkun Strandgötubrúar og gerð undirganga við hana hélt áfram. Umferð var færð frá norðurakbraut yfir á nýja suðurakbraut fyrir jól.

Á nýju ári hófst verktaki handa við að lækka norðurakbraut við Hvaleyrarholt og gerð norðurstöpuls göngubrúar hófst við Þorlákstún. Smíði göngubrúa lauk í Póllandi og þær undirbúnar til flutnings til Íslands. Göngubrýrnar komu til landsins í lok febrúar og lagðist flutningaskipið við höfn í Straumsvík. Þær voru fluttar á Reykjanesbraut að brúarstæðum sínum og var göngubrúin við Þorlákstún jafnframt hífð á sinn stað. Eftir að lækkun norðurakbrautar lauk við Hvaleyrarholt byrjaði verktaki á því að leggja út styrktar- og burðarlag. Klárað var að malbika norðurakbraut vestan við rampa að og frá Strandgötu um miðjan júní og stuttu síðar var síðasta lag suðurakbrautar á sama svæði klárað. Í lok vetrar hafði verktaki klárað breikkun Strandgötubrúar og suðurhelming undirganga við brúna.

Á sama tíma og unnið var við norðurakbraut vestan Strandgötu var hafist handa við gerð nýrrar suðurakbrautar austan Strandgötu. Byrjað var að grafa laust efni ofan af klöpp í burtu og hún fleyguð og víbrórippuð til að lækka brautina, samhliða var unnið við lagnavinnu. Styrktar- og burðarlag voru lögð út jafnóðum og malbikun á kaflanum lauk snemma sumars. Í kjölfar þessa færði verktaki umferð alfarið yfir á nýja suðurakbraut og hóf vinnu við að lækka norðurakbraut austan Strandgötu, fór hásumarið í þá vinnu og að klára norðurhluta undirganga við Strandgötubrú. Vinnu við að lækka og malbika norðurakreinar lauk í lok ágúst og göngubrú við Ásland var hífð á stöpla sína. Í framhaldi af því var unnið í að breikka akreinar og breyta miðdeili á austasta hluta svæðisins og lauk malbikun þar seinni hluta október.

Yfir allt verkið vann verktaki við að byggja upp hljóðmanir, setja upp hljóðveggi og vinna við landmótun   Þorlákstúnsins með umframefni í verkinu. Ljósastaurar, skiltaundirstöður og vegrið voru sett upp jafnóðum í verkinu þegar malbikun var alfarið lokið á hverju svæði fyrir sig.

Þann 24. nóvember voru nýjar akbrautir í verkinu teknar í notkun og verktaki vann eftir það að ýmsum frágangi. 

Hönnun verksins var í höndum Eflu verkfræðistofu, Studio Granda og Landslags .  Eftirtaldir starfsmenn komu að verkinu:

 • Baldvin Einarsson – hönnunarstjóri
 • Magnús Arason og Kristján Uni Óskarsson– brúarhönnun
 • Sigrún Marteinsdóttir – veghönnun
 • Guðmundur Ragnarsson – hönnun undirganga
 • Margrét Aðalsteinsdóttir – hljóðvist
 • Steve Christer  – arkitektúr
 • Eiður Birgisson – landslagsarkitektúr

Aðalverktaki var Ístak hf. Eftirtaldir starfsmenn komu að verkinu:

 • Brynjar Brjánsson – yfirverkfræðingur
 • Þröstur Sívertsen - staðarstjóri og umsjónarmaður jarðvinnu
 • Óskar Helgason - umsjónarmaður brúa og undirganga
 • Björn Sigurðsson, Þórður Jónsson, Jón Gils Ólason, Ólafur Kristinsson, Ármann J. Garðarsson og Sigurður Lárusson – verkstjórar
 • Ásta Ósk Stefánsdóttir - öryggis- og gæðamál.

Á verktíma hafði aðalverktaki haft í sinni þjónustu nokkra undirverktaka og eru þeir helst:

 • Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas hf.  - sá um malbikun
 • Rekverk ehf.  – sá um uppsetningu vegriðs
 • GSG ehf. – sá um vegmálun

Eftirlit á framkvæmdatíma var  í höndum Mannvits. Eftirtaldir starfsmenn komu að verkinu:

 • Rúnar G. Valdimarsson – aðaleftirlitsmaður og eftirlit með steyptum mannvirkjum og mælingum
 • Haraldur Hallsteinsson - daglegt eftirlit og eftirlit með jarðvinnu og vegagerð
 • Þorri Björn Gunnarsson – eftirlit með slitlögum
 • Sigurður Páll Steindórsson – eftirlit með framleiðslu stáls

Fulltrúar verkkaupa á framkvæmdatíma voru:

 • Magnús Ólafur Einarsson, framkvæmdadeild - verkefnastjóri
 • Ólafur Sveinn Haraldsson, rannsóknadeild - umsjónarmaður
 • Helga Stefánsdóttir - umsjónarmaður fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

Í stýrihóp verkkaupa voru:

 • Svanur Bjarnason, Suðursvæði
 • Guðmundur Valur Guðmundsson, þróunarsvið
 • Óskar Örn Jónsson, framkvæmdadeild
 • Jónas Snæbjörnsson, þróunarsvið
 • Sigurþór Guðmundsson, framkvæmdadeild

Framhaldið

Nú þegar hefur Vegagerðin hafist handa við næsta áfanga Reykjanesbrautar milli Krýsuvíkurgatnamóta og Hvassahrauns. Á árinu var boðið út samtímis mat á umhverfisáhrifum, forhönnun og verkhönnun og stefnt er að þeirri vinnu verið lokið haustið 2021.   Gert er ráð fyrir að tvöföldun Reykanesbrautar til Keflavíkur verði lokið innan fárra ára.

Þessi grein birtist í 8. tbl. Framkvæmdafrétta 2020. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.