Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Covid daglegur munur vika 48
  • Covid umferðin það sem af er ári 30.11.2020
  • Umferðin eftir vikudögum

Tuttugu prósentum minni umferð í nóvember á höfuðborgarsvæðinu

Mikill samdráttur í umferðinni í október og nóvember

1.12.2020

Umferðin í nóvember á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 20 prósent rétt einsog í október. Þetta er gríðarlegur samdráttur sem rekja má til hertra sóttvarnarreglna. Útlit er fyrir svipaðan samdrátt í desember sem leiddi til þess að umferðin í ár á svæðinu dregst saman um 11 prósent sem er fimm sinnum meiri samdráttur en áður hefur mælst á þennan hátt.

Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, reyndist 20% minni í nóvember borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er sami samdráttur og varð á milli októbermánaða.

Mest dróst umferðin saman um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um tæp 28% en minnst um mælisnið á Reykjanesbraut eða um tæp 16%.

Til marks um hversu stór þessi samdráttur er, þarf að fara aftur til ársins 2014 til að finna minni umferð í nóvember mánuði, fyrir umrædd mælisnið.

Umferð eftir vikudögum
Á virkum dögum, í nóvember, reyndist umferðin mest á föstudögum en minnst á miðvikudögum.

Umferð dróst saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á laugardögum eða um tæplega 22% en minnst á mánudögum eða um rétt rúmlega 10%.  Samdráttur á virkum dögum var samtals tæplega 13% en um helgar rúmlega 20%.  Svo út frá þessu mætti álykta að ökumenn hafi dregið stórlega úr akstri til að sinna í einkaerindum.

Horfur út árið
Nú þegar aðeins desember er eftir af árinu má búast við því að umferðin í desember verði einnig um 20% minni en í sama mánuði á síðasta ári, eins og varð raunin í október og nóvember.  Gangi það eftir verður umferðin í umræddum sniðum um 11% minni en á síðasta ári.  Það var ljóst fyrir nokkru síðan að samdráttur ársins yrði án fordæma og gangi þessi spá eftir yrði samdrátturinn tæplega fimm sinnum meiri en áður hefur mælst þessum samantektum Vegagerðarinnar.

Umferðin í viku 48 - Covid-19

Hvað varðar umferðina í síðustu viku, eða viku 48, þá reyndist umferðin 0,4% minni en í viku 47 en aftur á móti var hún rétt rúmlega 19% minni en í sömu viku á síðasta ári. Umferðin er því ekki að aukast jafnt og þétt eftir því sem vikurnar líða í samkomutakmörkunum og samdrátturinn frá fyrra ári svipaður á milli vikna.

Þess ber þó að geta að umferðin hefur aukist um tæp 8% frá viku 42.  Þetta eru heldur meiri sveiflur en voru á árunum 2018 og 2019, en þá voru breytingar innan við 2% árið 2018 og innan við 3% á árinu 2019, í sömu vikum.

Svona varð samdráttur, milli ára í viku 48, eftir mælisniðum:

Hafnarfjarðarvegur          24,7%
Reykjanesbraut                14,6%
Vesturlandsvegur             18,2%