Fréttir
  • Við hön„Brú á að standa í hundrað ár og það má ekki kasta til höndum,“ segir Guðrún Þóra.
  • Brúin yfir Þorskafjörð er sú lengsta sem Guðrún Þóra hefur hannað. Hér er hún að skoða aðstæður.
  • Guðrún Þóra og Reynir Gunnarsson, fyrrum rekstrarstjóri á Höfn, á framkvæmdasvæði við Steinavötn árið 2017.
  • Guðrún Þóra telur mikilvægt að sækja ráðstefnur sem fjalla um brýr til að fá nýjar hugmyndir og læra eitthvað nýtt.
  • Við Haffjarðará í maí 2011.

Þykir vænt um brýrnar sínar

Viðtal í Framkvæmdafréttum

3.4.2023

Guðrún Þóra Garðarsdóttir réði sig í sumarstarf hjá Vegagerðinni og varð þá fyrsta verkfræðimenntaða konan til að starfa hjá stofnuninni. Brýr eru hennar sérsvið og þær eru ófáar brýrnar sem hún hefur hannað eða komið að á einhvern hátt. Guðrún Þóra heldur fyrirlestur um sögu íslenskra brúa á brúarráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin verður miðvikudaginn 26. apríl 2023. Öll eru velkomin.

„Ég kom fyrst til Vegagerðarinnar í júní 1988 og vann út desember það sama ár. Þá var ég nýkomin heim til Íslands eftir að hafa lokið mastersnámi í byggingarverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole, eða DTH í Danmörku. Lokaverkefnið mitt snerist um hönnun brúar yfir Eyvindará hjá Egilsstöðum og við undirbúning þess hafði ég verið í sambandi við Einar Hafliðason, þáverandi forstöðumann brúadeildar Vegagerðarinnar. Þegar Einar frétti að ég væri útskrifuð og í atvinnuleit bauð hann mér sumarstarf, sem ég þáði. Á þessum tíma voru ekki margar tæknimenntaðar konur hjá Vegagerðinni en mér skilst að ég sé fyrsta verkfræðimenntaða konan sem kom til starfa hjá stofnuninni,“ segir Guðrún Þóra, sem er deildarstjóri á hönnunardeild. Helsta verkefnið sem hún sinnti var forhönnun á nýrri Markarfljótsbrú. „Ég var einnig með í útreikningum á stáli fyrir Tungufljót og fleira,“ rifjar hún upp.  

Guðrún Þóra segir verkfræði ekki hafa verið fyrsta kost þegar hún ákvað að fara í háskólanám en það átti eftir að breytast. „Ég var á náttúrusviði við Menntaskólann í Hamrahlíð og útskrifaðist sem stúdent um jólin 1981, en ég tók námið á þremur og hálfu ári. Bróðir minn, sem var í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, vildi endilega að ég færi í verkfræði og hvatti mig til þess en ég hélt nú ekki. Mér fannst verkfræðin virka sem svo strembið nám og hafði ekki hug á að vera alltaf að læra. Ég hafði áhuga á að læra líffræði eða jafnvel erfðafræði. En síðan fór ég að vinna sem ritari hjá Ríkisskipum eftir stúdentinn. Þetta var svo einhæft starf, ég var að pikka inn farmskrár, að ég fór að hugsa að kannski væri hægt að leggja eitthvað á sig til að eiga möguleika á fjölbreyttu starfi. Ég skoðaði námsskrá HÍ og sá að í byggingarverkfræði voru ýmis áhugaverð námskeið, svo sem jarðtækni og vatnafræði. Ég ákvað því að prófa byggingarverkfræðina og sjá til hvernig mér líkaði. Þá kom á daginn að námið var bæði áhugavert og skemmtilegt svo ég hélt áfram og lauk prófi í 1986.“ 

Á námsárunum eignaðist Guðrún Þóra góðan vinahóp sem hefur haldið sambandi allar götur síðan og hluti þeirra vinnur hjá Vegagerðinni. „Það var svo dýrmætt að kynnast þessu fólki, ekki síst vegna þess að oft var mikið álag í náminu og við studdum hvert annað í gegnum það. Við vorum átján sem útskrifuðumst saman, þar af þrjár stelpur. Í þeim hópi er Auður Þóra Árnadóttir, sem er forstöðumaður á þróunarsviði Vegagerðarinnar og Kristinn H. Guðbjartsson, verkfræðingur á hönnunardeild. Ingunn Erna Jónsdóttir, verkfræðingur á hafnadeild, útskrifaðist svo ári á eftir okkur,“ upplýsir Guðrún Þóra og bætir við að þegar að hún ákvað að fara í námið hafi hún stundum fengið að heyra hvort að verkfræði væri nokkuð nema fyrir karlmenn. „Þá svaraði ég því til að ég vissi ekki að það þyrfti vöðva til að reikna. Verkfræði er fag fyrir alla og er mjög skemmtileg.“  

Þegar talið berst að því hvað hafi tekið við eftir að þessari tímabundnu ráðningu hjá Vegagerðinni lauk kemur í ljós að leið Guðrúnar Þóru lá þá til Háskóla Íslands. Það var heldur óvænt og ekki á dagskránni.  

„Ég setti mig í samband við Ragnar Sigbjörnsson heitinn, sem þá var forstöðumaður Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og hann spurði hvort ég væri til í að koma og kenna við verkfræðideildina. Í einhverju bríaríi sagði ég strax já. Áður en ég vissi af var ég stödd með hönd á hurðarhún að ganga inn í kennslustofu að kenna. Þetta bar svo brátt að, að ég hafði ekki haft tíma til að hugsa mikið um þetta. Ég byrjaði á að kenna nemendum á fjórða ári og það verður að segjast að fyrsti tíminn var stuttur. Þau voru nýbúin í prófum og það var samþykkt einróma að hafa stuttan tíma,“ segir hún en árin hjá HÍ urðu alls sex talsins.  

Frá tússpennum í tölvur  

„Auk kennslu sinnti ég verkefnum hjá Aflfræðistofu HÍ, sem núna heitir Jarðskjálftamiðstöðin. Á meðal þess sem ég kenndi var smáeiningaaðferðin og tölvuteiknun. AutoCAD forritið var notað í tölvuteikningunni. Það var nýjung að teikna í teikniforriti, áður var kennt að teikna með tússpennum. Ég sinnti líka ýmsum rannsóknum, aðallega í jarðskjálftafræði. Eitt verkefnið snerist um að gera hreyfimynd af Húsi verslunarinnar í jarðskjálfta. Myndin sýndi fyrst alla bygginguna og síðan var sýnd hreyfing byggingarinnar, hressilega ýkt, í jarðskjálfta. Þetta var árið 1991 og ég á leið í barneignarfrí en myndin var sýnd á jarðskjálftaráðstefnu árið eftir. Við greindum líka gervifót frá Össuri, sem þá var nýtt fyrirtæki. Gert var burðarþolslíkan af gervifætinum til að skoða hvers vegna stykki í honum klofnaði alltaf. Við fundum út að það var mikil spennuþjöppun á einum stað, þar sem stykkið klofnaði. Hönnuninni var breytt og vandamálið hvarf. Eftir þessi sex ár fannst mér kominn tími til að breyta til og þá réði ég mig til Vatnsveitunnar. Þar var ég í að forrita fyrir landupplýsingakerfi, sem var mjög skemmtilegt,“ rifjar Guðrún Þóra upp en að ári liðnu tóku atvinnumálin nýja stefnu.  

„Þá bauðst mér staða hjá Vegagerðinni við brúahönnun sem ég ákvað að þiggja. Ég byrjaði í nóvember 1995 og hef verið hér síðan. Fyrst var ég á brúadeild, hún var sameinuð við veghönnunardeild og frá árinu 2013 heitir deildin hönnunardeild.“ 

Vel skal vanda það sem lengi á að standa  

Á þessum tæpu þremur áratugum hefur Guðrún Þóra hannað fleiri brýr en hún hefur tölu á. „Já, þær eru orðnar töluvert margar, líklega um tvær á ári. Núna er verið að byggja tvær brýr sem ég teiknaði, annars vegar í Þorskafirði, sem er sú lengsta sem ég hef hannað, og hins vegar yfir Laxá á Skaga, en sú brú verður frekar há. Eins og stendur er ég að vinna í hönnun á brú yfir Köldukvísl á Norðausturvegi. Þá voru tvær brýr af fjórum í Hornafirði á minni könnu.“  

Spurð hvað þurfi helst að hafa í huga við brúarhönnun svarar Guðrún Þóra að þar komi margt til.  

„Gera þarf fjölda rannsókna áður en hafist er handa. Fyrst þarf að skoða náttúruna í kringum fyrirhugaða brú, kanna hvernig vatnafarinu er háttað og hvort um sé að ræða flóðasvæði. Einnig þarf að athuga hvort brúin sé á jarðskjálftasvæði og þar fram eftir götunum. Mæla þarf umferðina og umferðarmagnið. Þá skiptir veglínan og hæð og lega miklu máli. Í framhaldinu þarf að skoða grundun, en í henni felst að rannsaka hversu djúpt er niður á fast og hvernig jarðvegurinn er, hvort hægt sé að reisa brú á bergi eða staurum. Brú án góðrar grundar getur hæglega hrunið,“ segir hún og bætir við: „Stundum á ný brú að vera á nákvæmlega sama stað og sú gamla. Þá þarf að rífa þá gömlu og gera bráðabirgðaleið. Oft er ný brú í nýrri veglínu og þá tekur allt ferlið lengri tíma. Í þeim tilfellum er byrjað á að gera nokkrar veglínur, skoða þær og svo þróast það áfram. Gerð eru frumdrög og kostnaðaráætlun, síðan tekur við forhönnun og í framhaldinu er tekin ákvörðun um hvernig brú á að hanna áfram. Þetta getur verið nokkurra ára ferli en það er nauðsynlegt að taka sér góðan tíma í þetta. Brú á að standa í hundrað ár og það má ekki kasta til höndum.“  

Saga brúa á Íslandi er stórmerkileg og hefur að vonum vakið áhuga Guðrúnar Þóru. „Fyrstu brýrnar voru úr timbri og entust ekki lengi því timbrið fúnaði auðveldlega. Síðan kom stálið til sögunnar og fyrir aldamótin 1900 voru reistar hengibrýr. Yfir Örnólfsdalsá í Borgarfirði stendur enn hengibrú sem var byggð árið 1899 og er því elsta uppistandandi hengibrú landsins. Ákveðið var að varðveita þá brú. Svipaðar brýr voru byggðar á þessum árum á fimm öðrum stöðum, yfir Ölfusá, Þjórsá, Jökulsá í Öxarfirði, Sogið og Hörgá. Það var bylting fyrir samfélagið að fá varanlegar brýr. Árnar voru mikill og jafnvel hættulegur farartálmi, eins og Jökulsá á Sólheimasandi er dæmi um. Vegir og brýr tengja saman sveitir og bæi og draga úr einangrun,“ segir Guðrún Þóra og minnir jafnframt á að stundum séu náttúruöflin svo sterk að ekkert mannvirki standi þau af sér.  

„Kötluhlaup og hamfarahlaup eru dæmi um það. Katla minnti á sig sumarið 2011 þegar hlaup kom úr jöklinum svo brúin yfir Múlakvísl skolaðist í burtu þann 9. júlí. Sú brú var hönnuð til að taka á sig sæmilega stórt flóð en framburður úr ánni hafði fyllt mikið upp í brúarstæðið og hún stóðst ekki hlaupið sem kom þennan dag. Fyrir fimm árum fór brúin yfir Steinavötn í miklum vatnavöxtum. Þá strax um kvöldið var ég búin að teikna bráðabirgðabrú sem brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar reisti á einni viku.“ 

Syngur í kór og hugar að heilsunni 

Ekki er úr vegi að spyrja hvort hún hafi átt von á að vinna jafnlengi hjá Vegagerðinni og raun ber vitni og hvort margt hafi breyst á þessum árum. „Ég hugsaði ekkert út í það en þetta er skemmtilegt og fjölbreytt starf. Í heimsfaraldrinum fékk ég tækifæri til að sinna starfi forstöðumanns hönnunardeildar í þrettán og hálfan mánuð og mér fannst það mjög gaman. Ég hef tekið þátt í starfi NVF (Norræna vegasambandið) og var um tíma ritari. Það er gefandi og lærdómsríkt að vera í samstarfi við hinar norrænu þjóðirnar og mikilvægt að við lærum hvert af öðru. Ég hef haldið nokkra fyrirlestra um brýr, m.a. fyrir NVF. Helstu breytingarnar felast í hversu hratt tæknin hefur þróast. Þegar ég kom til Vegagerðarinnar sem sumarstarfsmaður var tölvuöldin að ganga í garð. Í náminu á Íslandi notaði ég blýanta til að teikna mannvirki en í dag nota ég bestu forrit sem fáanleg eru hverju sinni. Til að halda mér ferskri í faginu finnst mér gott að fara á ráðstefnur sem tengjast brúm beint, bæði til að fá nýjar hugmyndir og læra eitthvað nýtt.“ 

Aðspurð eru áhugamálin nokkur en Guðrún Þóra er í kór og segir það rosalega gaman. „Ég reyni að hreyfa mig reglulega og huga að heilsunni, fer í göngutúra, sund og hjóla. Ég er í sambúð og á einn son, einn stjúpson og eina tengdadóttur. Við parið erum dugleg að ferðast um landið og þá nota ég tækifærið og skoða brýr frá öllum hliðum.“  

En skyldi Guðrún Þóra eiga sér uppáhaldsbrú? „Ég get ekki valið neina eina. Mér þykir vænt um þær allar, stórar sem smáar.“  

Greining birtist fyrst í 7. tbl Framkvæmdafrétta sem kom út í desember 2022.