Fréttir
  • Bryndís Friðriksdóttir svæðisstjóri Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar.

Þremur verkefnum samgöngusáttmála lokið – myndband

Viðtal við Bryndísi Friðriksdóttur svæðisstjóra Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar

16.2.2021

Fyrsta verkefna samgöngusáttmálans lauk í nóvember þegar framkvæmdir við Reykjanesbraut í Hafnarfirði kláruðust. Síðan þá er tveimur verkum til viðbótar lokið, annars vegar í Mosfellsbæ og hins vegar á Suðurlandsvegi við Bæjarháls. Gert hefur verið stutt myndband þar sem Bryndís Friðriksdóttir svæðisstjóri Höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar fer yfir verkefnin þrjú.

Reykjanesbraut (41), Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur

Umferð var hleypt á hinn nýja tvöfalda veg í Hafnarfirði frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót þann 24. nóvember 2020. Framkvæmdin fólst í tvöföldun þessa 3,2 km kafla með byggingu nýrrar akbrautar sunnan núverandi vegar.

Framkvæmdin er merkileg fyrir þær sakir að þessi vegkafli er sá fyrsti sem klárast af þeim sem tilheyra Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins auk þess sem gert er ráð fyrir legu Borgarlínunnar undir Reykjanesbrautina við Strandgötu í framtíðinni.

ÍSTAK var verktaki verksins en Mannvit sá um eftirlit.

Hringvegur (1), Skarhólabraut - Langitangi

Verkið í Mosfellsbæ fól í sér endurbyggingu og breikkun Hringvegar (1) í Mosfellsbæ milli Skarhólabrautar og Langatanga. Verkið var samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar. Það fólst í endurgerð og breikkun vegarins á 1.100 m kafla, gerð biðstöðvar Strætó með stígtengingum, gerð hljóðvarnarveggja/mana o.fl. Verktaki var Loftorka Reykjavík ehf.

Suðurlandsvegur (1), Vesturlandsvegur - Bæjarháls

Verkið fólst í tvöföldun Suðurlandsvegar frá núverandi vegi rétt sunnan Vesturlandsvegar og suður fyrir Bæjarháls. Tvöföldun vegarins var tengd við vegyfirborð í báðum endum og auk þess voru rampar frá Bæjarhálsi aðlagaðir að tvöfölduðum vegi. Undirgöng undir Suðurlandsveg við Krókháls voru breikkuð og stígar í gegnum þau endurgerðir. Verktaki var Óskatak efh.

l