Fréttir
  • Börn eru líklegri til að ganga eða hjóla í skólann ef þau þurfa ekki að þvera þjóðveg.
  • Þjóðvegir liggja víða í gegnum bæi. Til dæmis í Vík.
  • Erna Bára Hreinsdóttir forstöðumaður skipulagsdeildar Vegagerðarinnar.
  • Áhrif þjóðvegar á ferðamáta grunnskólabarna.
  • Umferð miðað við íbúafjölda.

Þjóðvegir í bæjum hafa áhrif á gönguvenjur

Erna Bára Hreinsdóttir forstöðumaður hjá Vegagerðinni flutti erindi á málþingi um börn og samgöngur.

27.11.2019

Þjóðvegir í þéttbýli á landsbyggðinni hafa mikil áhrif á það hvort börn gangi eða hjóli í skóla. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Ernu Báru Hreinsdóttur, forstöðumanns skipulagsdeildar Vegagerðarinnar, á málþinginu Börn og samgöngur sem haldið var 18. nóvember síðastliðinn.

Málþingið var á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ungir sem aldnir tóku til máls og ræddu stöðu barna í samgöngum í víðu samhengi. Margir góðir fyrirlestrar voru fluttir.  

Gott skipulag skiptir öllu

Fyrirlestur Ernu bar heitið „Komiði með hætturnar“ og fjallaði um skipulag, þjóðvegi og börn.

„Umferðaröryggi hefur alltaf verið mér hugleikið og ég hef komist betur og betur að því að gott skipulag er fyrir öllu. Ef skipulag er gott með tilliti til umferðaröryggis er eftirleikurinn auðveldur. Ef það er slæmt verður allt annað plástur á sárin,“ segir Erna sem er tæknifræðingur og skipulagsfræðingur

Heiti fyrirlestrarins „Komiði með hætturnar“ er komið frá hinni knáu Ronju Ræningjadóttur. „Mér kom þessi setning í hug þegar ég hugsaði til þess að það þyrfti heilt þorp, í hennar tilviki ræningjabæli, til að ala upp barn. Í sögunni passa foreldrarnir og ræningjarnir upp á að hætturnar sem Ronja mætir séu aldrei meiri en svo að hún ráði við þær. Börnin okkar alast upp í aðeins öðruvísi skógi en Matthíasarskógi, því í dag er hann samansettur úr stórum umferðargötum og ökutækjum.“

Erna bendir á að hlutverk Vegagerðarinnar sé að gæta umferðaröryggis en einnig að umferð eigi greiða og góða leið um þjóðvegi landsins. „Stundum getur verið erfitt að samræma kröfur um bæði greiðfærni og öryggi enda eru stór ökutæki eins og flutningabílar og rútur þannig gerðar að erfitt er fyrir bílstjóra að sjá allt í kringum bílinn.“

Börn á landsbyggðinni ganga og hjóla síður í skólann ef þau þurfa að þvera þjóðveg

Þegar Erna Bára tók meistarapróf í skipulagsfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands langaði hana að skoða hvaða áhrif þjóðvegurinn hefði á gönguvenjur fólks. Til að einfalda hlutina einskorðaði hún sig við ferðavenjur skólabarna.

Eldri könnun frá Reykjavík leiddi  í ljós að 84% barna fóru gangandi eða hjólandi í skóla. „Oftast eru skólahverfin afmörkuð af stærstu götunum og því þurfa börn í Reykjavík í fæstum tilvikum að fara yfir þjóðveg eða aðrar umferðaræðar til að komast í skóla.“

Til samanburðar skoðaði hún ferðavenjur skólabarna á landsbyggðinni, nánar tiltekið í Bíldudal, Húsavík, Vík, á Ísafirði, Egilsstöðum og Reyðarfirði. „Ég fékk liðsinni starfsmanna skólanna sem voru afar hjálpfúsir,“ segir Erna en áhugavert er að skoða umferðina í bæjunum með tilliti til íbúafjölda. „Á Egilsstöðum sem dæmi, fara helmingi fleiri ökutæki um þjóðveginn á dag en íbúar sem búa þar. Í Vík er fjöldi ökutækja margfalt meiri en íbúafjöldi.“

Í ljós kom að færri börn í þessum bæjum gengu eða hjóluðu í skólann en í Reykjavík, og telur Erna Bára þjóðvegi hafa mikið um það að segja. „Um 66% barnanna gengu eða hjóluðu í skólann miðað við 84% í Reykjavík. Inn í þessum tölum eru ekki þeir sem koma á skólabíl eða eiga heima lengra en 800 metra frá skólanum,“ lýsir Erna sem skoðaði í framhaldinu áhrif þjóðvega í þessum bæjum. Myndin breytist verulega ef horft er til þess hvort börn þurfi að þvera þjóðveg á leið sinni til skóla eða ekki.

Í heildina gengu 77% barna á landsbyggðinni í skólann ef ekki þurfti að fara yfir þjóðveg, sem er sambærilegt við niðurstöður frá Reykjavík, en aðeins 40% ef þjóðvegur var á leiðinni. „Þetta hlýtur að segja okkur að forráðafólk barnanna líti á þjóðveginn og umferðina um hann sem ákveðna hættu og meti áhættuna meiri en ávinninginn af því að ganga eða hjóla.“

Hvar á að þétta byggð?

Þjóðvegir í bæjum virðast því hafa þó nokkur áhrif á gönguvenjur fólks. „Sums staðar er verið að skoða hvort hægt sé að færa þjóðvegi út fyrir byggð. Það er auðvitað mjög dýrt og ekki alls staðar hægt. Það verður þó til dæmis gert á Selfossi á næstu árum með nýrri Ölfusárbrú,“ segir Erna og bendir á að niðurstöður rannsóknarinnar þyrfti einnig að hafa til hliðsjónar við þéttingu byggðar. „Huga ætti að því að þétta byggðina þeim megin þjóðvegar eða umferðaræðar sem skóli er staðsettur til að börn komist í skóla með öruggum hætti.“