Fréttir
  • Hjolaslys-mynd

Sýnileiki og góð hönnun gatnamóta lykilatriði varðandi hjólreiðar

skýrsla um nákvæma greiningu hjólaslysa árið 2014

22.7.2016

Gatnamót og tengingar eru sérstaklega varhugaverð fyrir hjólreiðafólk þar sem sýnileiki skiptir verulegu máli, segir í skýrslu um nákvæma greiningu á hjólreiðaslysum á árinu 2014. Við slys er langalgengasta skýring ökumanns bifreiðar sem olli slysi við gatnamót eða tengingu að hann sá ekki hjólandi vegfarandann. Mikilvægi góðrar hönnunar skiptir því mjög miklu máli.

Skýrsluna vann Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni. Í niðurstöðunum kom í ljós að helstu vandamál varðandi sýnileika eru:

  • Hjólandi vegfarendur geta þverað gatnamót úr báðum áttum þegar hjólað er eftir stíg eða gangstétt.
  • Vegsýn er skert, t.d. vegna gróðurs.
  • Hraði hjólandi vegfaranda er of mikill. Ökumaður nær ekki að bregðast við sökum hraða hjólandi vegfaranda, þ.e. hann sér hjólandi vegfarandann of seint þar sem hann nálgast gatnamótin á mikilli ferð.

Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi góðrar hönnunar á innviðum ætluðum hjólreiðum við gatnamót, þar sem vegsýn skiptir miklu máli. Einnig þurfa reglur um umferð á mannvirkjum ætluðum hjólreiðum að vera skýrar, t.d. hvort um einstefnu eða tvístefnu sé að ræða fyrir hjólandi vegfarendur. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að öruggara sé að hjóla í þá átt sem akreinin sem liggur samsíða stígnum/gangstéttinni stefnir í. Almennt þurfa allir vegfarendur að sýna varkárni í umferðinni. Ökumenn bifreiða þurfa að gæta sín á að meta ekki umferðina eingöngu út frá öðrum bifreiðum og að vera vel vakandi fyrir hjólandi umferð. Hjólandi vegfarendur þurfa einnig að sýna ábyrgð og góð regla er að hægja á sér við gatnamót og ná augnsambandi við ökumann bifreiðar til þess að tryggja sýnileika, þegar gata er þveruð.

Til að tryggja umferðaröryggi stígakerfa skiptir hönnun, rekstur og umhverfi stíganna máli, segir m.a. í skýrslunni sem má nálgast í heild sinni á vef VegagerðarinnarEða hér með öðrum rannsóknarskýrslum.