Stöðug vöktun vegna jarðhræringanna
Vegagerðin fylgist vel með
Vegagerðin fylgist stöðugt með vegakerfinu á Reykjanesi og fer daglega í eftirlitsferðir og oftar ef stórir skjálftar ríða yfir. Þá hefur Vegagerðin sett upp myndavél á Þorbirni til að fylgjast betur með því svæði þar sem möguleg eldsumbrot gætu hafist. Litlar sprungur hafa myndast í yfirborði Grindavíkurvegar í jarðskjálftum síðustu daga.
Sprungurnar eru allar litla, innan við sentimetra, sumar eru eldri sprungur sem hafa stækkað aðrar nýjar. Þær hafa ekki áhrif á burð vegarins eða öryggi þannig að ekki er ástæða til að hafa áhyggjur. Vegagerðin fylgist grannt með öllum breytingum á vegakerfinu á þessu svæði og mun bregðast hratt við ef þörf verður á því. Þetta er staða sem hefur komið upp í fyrri jarðskjálftahrinum þannig að það er komin nokkur reynsla á að fylgjast með framvindunni.
Myndavélin sem Vegagerðin var að setja upp á Þorbirni horfir á annað svæði en
aðrar vélar á Þorbirni eða á Sýlingafell og svæði fyrir sunnan, svæði austan
Grindavíkurvegar. Þessi vél er enn sem komið er að minnsta kosti ekki á vefnum
en nýtist starfsmönnum sem fylgjast stöðugt með framvindunni.
Vegagerðin hefur einnig verið að aðstoða við að tryggja fjarskiptasamband með
því að tryggja rafmagn á þremur vitum á svæðinu sem bera fjarskiptamöstur.
Unnið er með Mílu sem birti þessar upplýsingar um sín viðbrögð í gær
Af Facebooksíðu Mílu:
Við fylgjumst náið með stöðunni á Reykjanesi
Við hjá Mílu erum búin að vera að undirbúa okkur fyrir mögulegar sviðsmyndir
jarðhræringa á Reykjanesi, til að tryggja sem best fjarskipti á svæðinu ef á
reynir️.
Undirbúningur okkar felst í því að:
- Flytja rafstöðvar inn á svæðið til að hægt sé að halda uppi fjarskiptaþjónustu ef rafmagn fer af í lengri tíma
- Undirbúa starfsfólk og tryggja að efni sé til staðar ef fara þarf í viðgerðir á mikilvægum ljósleiðarastrengjum
- Bæta við fjarskiptum í lofti milli Reykjanesvita og Hópsnesvita til að tryggja fjarskipti á svæðinu yst á Reykjanesi, fari strengir í jörðu í sundur í eldgosi.
Við tökum stöðuna reglulega og metum hvaða aðgerða kann að verða þörf á að
grípa til. Við erum á vaktinni allan sólarhringinn og fylgjumst með stöðu
fjarskipta á landinu og bregðumst við um leið og þarf