Fréttir
  • Stálið var sums staðar fimm til sex metra hátt.
  • Beltagröfu, traktorsgröfu og hjólaskóflu þurfti til að vinna verkið.
  • Vegriði töfðu verkið enda þurfi að moka snjónum yfir það.
  • Stórvirkar vinnuvélar þurfti til að vinna á snjónum.
  • Víglundur Rúnar Pétursson yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Sauðárkróki.

Snjóstálið rutt í Bólstaðahlíðarbrekku

Hátt í sex metra stál á Hringvegi (1) milli Blönduóss og Varmahlíðar.

3.4.2020

Vegagerðin og verktakar á hennar vegum unnu að því að ryðja burtu háu snjóstáli í Bólstaðahlíðarbrekku til að minnka hættu á ófærð en ekki síður tjóni fyrir vegfarendur.

„Okkur þykir hart að geta ekki leyft sólinni, hitanum og vorinu að éta snjóinn niður en stundum þurfum við aðeins að hjálpa til. Þetta voru því fyrirbyggjandi aðgerðir,“ segir Víglundur Rúnar Pétursson yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Sauðárkróki. Hann lýsir því að í Bólstaðahlíðarbrekku, sem liggi upp á Vatnsskarð úr Langadal að vestanverðu, sé snjóstálið fimm til sex metra hátt og hafi byrjað að safnast upp strax í desember og alltaf bætt í. „Þegar fór að hlýna fóru efri snjóalögin, sem komu síðar í vetur, að skríða fram á hjarninu undir og hrynja á veginn og loka honum. Miklar hengjur mynduðust sem sköpuðu hættu fyrir vegfarendur.“

Þegar vart varð við þetta síðastliðinn mánudag var ákveðið að fara í aðgerðir til að minnka líkur á frekara hruni. „Við fórum á staðinn með beltagröfu til að kraka stálið niður og tvær skóflur til að moka snjónum burt,“ segir Rúnar en verkið var tafsamt vegna vegriðs á veginum sem moka þurfti snjónum yfir og framhjá. „Vegriðin eru góð fyrir öryggið en þau safna töluverðum snjó uppi á heiðum og því verður verra að halda vegum opnum.“

Rúnar segir veturinn ekki hafa verið starfsmönnum á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Sauðárkróki sérstaklega erfiður miðað við marga aðra landshluta. „Veturinn hefur ekki verið erfiður í lágsveitum í Skagafirði, en fjallvegir, Fljótin, Siglufjarðarleið og svo Bólstaðarhlíðarbrekkan hafa verið leiðinleg. Bólstaðarhlíðarbrekkan er því einn af fáum stöðum sem hefur valdið verulegum vandræðum hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki í vetur en Rúnar segir ástandið þar fremur óvenjulegt. „Þetta er kannski í þriðja eða fjórða skiptið á tíu til fimmtán árum sem við höfum þurft að moka stálinu burt á þessum stað. Sjaldan hefur snjórinn verið svona mikill.“

Verktakar á vegum Vegagerðarinnar sáu um að moka burtu snjónum en Vegagerðin skipulagði verkið.  „Við stöndum uppi á hól og þykjumst hafa vit á hlutunum,“ segir Rúnar glettinn. Hann vonast til að veturinn fari að slaka á taki sínu en þangað til þurfi fólk að halda ró sinni. „Eins og við segjum oft þá stjórnum við ekki veðrinu en reynum okkar besta til að greiða fólki leið. Ég veit það fyrir víst að það vorar alltaf,“ segir hann brosandi.