Fréttir
  • Undirskrift verksamnings. Óskar og Óskar
  • Breikkun Suðurlandsvegar við Hádegismóa
  • Breikkun Suðurlandsvegar við Hádegismóa
  • Undirskrift verksamnings, Andrés, Óskar og Óskar
  • Breikkun Vesturlandsvegar Skarhólabraut
  • Breikkun Vesturlandsvegar Skarhólabraut

Skarhólabraut og Hádegismóar

tvöfaldað á báðum stöðum í sumar

27.5.2020

Skrifað var í vikunni undir verksamninga um hvorttveggja breikkun kafla á Vesturlandsvegi um Mosfellsbæ, Skarhólabraut og um breikkun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi og framhjá Hádegismóum. Samið var við Loftorku Reykjavík ehf. annarsvegar og Óskatak ehf. hinsvegar. Framkvæmdir hefjast strax og á að vera lokið í haust í báðum tilvikum. 

Bæði verkin fela í sér breikkun þannig að kaflarnir verða 2+2 vegur að því loknu og eykur umferðaröryggi og greiðfærni.

Báðir verktakar munu hefja vinnu strax eða eru þegar byrjaðir þannig að vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát og aka varlega um vinnusvæðin.

Verkið í Mosfellsbæ felur í sér endurbyggingu og breikkun Hringvegar (1) í Mosfellsbæ milli Skarhólabrautar og Langatanga. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar. Um er að ræða endurgerð og breikkun vegarins á kaflanum, gerð biðstöðvar Strætó með stígtengingum, gerð hljóðvarnarveggja/mana o.fl. Lengd útboðskaflans er um 1.100 m.  Samkvæmt samþykktri verkáætlun skal vegurinn opnaður fyrir umferð á öllum fjórum akreinum eigi síðar en 15. september 2020 og verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2020.
Hitt verkið felst í tvöföldun Suðurlandsvegar frá núverandi vegi rétt sunnan Vesturlandsvegar og suður fyrir Bæjarháls. Tengja skal tvöföldun vegarins við núverandi vegyfirborð í báðum endum og auk þess færa rampa frá Bæjarhálsi til aðlögunar að tvöfölduðum vegi. Breikka og lengja skal núverandi undirgöng undir Suðurlandsveg við Krókháls og endurgera stíg í gegnum þau. Samkvæmt útboði átti verktaki að ljúka allri malbikun fyrir 1. september 2020 og ljúka frágangi endanlegs vegyfirborðs, umferðarmerkja og götulýsingar á öllum vegum sem framkvæmdin tekur þannig að hleypa megi á þá ótakmarkaðri umferð fyrir 15. september 2020. Verkinu öllu skal vera lokið fyrir 1. nóvember 2020. Hálfs mánaðar tafir urðu á samningum vegna kærumála og kynningar.


Myndirnar eru af fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum og frá undirskriftunum en á þeim eru margir Óskarar. Andrés Sigurðsson framkvæmdastjóri Loftorku Reykjavík, Óskar Örn Jónsson Vegagerðinni og Óskar Gísli Sveinsson Mosfellsbæ er við undirskriftina vegna Skarhólabrautar-verkefnisins og Óskar Ólafsson framkvæmdastjóri Óskataks og Óskar Örn Jónsson Vegagerðinni eru á hinni undirskriftarmyndinni.