Fréttir
  • Sáttmálinn er skýr.

Sáttmáli hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra

Mikilvægt að tryggja öryggi allra vegfarenda

17.5.2019

Sáttmáli um gagnkvæman skilning atvinnubílstjóra og hjólreiðafólks í umferðinni hefur litið dagsins ljós. Markmið sáttmálans er að auka gagnkvæman skilning og koma í veg fyrir slys, því mikilvægast af öllu er að tryggja öryggi allra vegfarenda. Samhliða fjölgun hjólreiðafólks undanfarin ár hefur hjólreiðaslysum einnig fjölgað, svo þörfin fyrir sátt og samlyndi ólíkra hópa í umferðinni hefur aldrei verið brýnni.  Sáttmálinn inniheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra eins og til dæmis um blinda svæði bílstjórans og hættuna fyrir hjólreiðafólk að fara yfir gatnamót. 

Sáttmálinn var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun, Landssamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar og Siggi danski atvinnubílstjóri kom einnig að undirbúningi hans.

Í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni var tekið viðtal við Maríu Ögn Guðmundsdóttur hjá Hjólaþjálfun, Kristin J. Eysteinsson hjá Reykjavíkurborg sem er sérfræðingur í innviðauppbyggingu og Árna Friðleifsson lögregluvarðstjóra í umferðardeild. Þar greindu þau frá sáttmálanum en hlusta má á viðtalið hér.   

Hér má skoða sáttmálann.