Fréttir
  • Áningarstaður Vegagerðarinnar
  • Áningarstaður Vegagerðarinnar
  • Áningarstaður Vegagerðarinnar

Salerni við þjóðvegi

Vegagerðin hefur ekki óskað eftir fjármagni frá stjórnvöldum til þess

31.5.2016

 

Vegagerðin rekur fjölda áningarstaða um land allt meðfram þjóðvegum. Nú í vetur hefur verið unnið að undirbúningi stefnumótunar um áningarstaði, bílastæði, útskot o.fl., ekki síst með tilliti til umferðaröryggis. Ekki er salernisaðstaða á áningarstöðum Vegagerðarinnar og það hefur ekki verið verkefni Vegagerðarinnar að sinna slíku.

 

Vegna umræðu á síðasta ári um skort á slíkri aðstöðu var sá þáttur einnig tekinn til skoðunar í þessari vinnu, ekki síst þar sem umgengni um marga áningarstaði hefur versnað mjög á síðustu árum hvað þetta varðar. Talið var æskilegt að setja upp snyrtiaðstöðu á 50-60 stöðum og brýnt á 30-40 stöðum. Einfaldar útfærslur með færanlegum salerniseiningum eru áætlaðar kosta 2-3 millj. kr. pr. stað í uppsetningu og rekstri í ár (í sumar), og heildarkostnaður við þessa brýnustu staði þá um 80 millj. kr.

 

Athygli er vakin á því að Vegagerðin hefur hvorki skyldur né heimildir til að koma upp og fjármagna uppbyggingu og rekstur á salernisþjónustu, og hefur ekki óskað eftir slíkum heimildum. Vinna Vegagerðarinnar hefur einungis snúið að framangreindri greiningu og kostnaðarmati til að leggja inn í umræðu um málið, auk þess að lýsa yfir vilja til að leggja fram faglega þekkingu varðandi umsjón og eftirlit með slíkum rekstri samhliða öðrum rekstri áningarstaða.