Fréttir
  • Vinstribeygju akrein inn á Skeiðarvog verður lengd.
  • Framkvæmdum lýkur fyrir lok júlí.
  • Vinstribeygju akrein inn á Bústaðaveg hefur verið lengd úr 110 m í 220 m.
  • Gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

Lenging til vinstri

Vinstribeygju akreinar á fjölförnum götum lengdar

12.7.2022

Vegfarendur um Sæbraut hafa eflaust orðið varir við framkvæmdir sem þar standa nú yfir. Unnið er að því að lengja vinstribeygju akrein á Sæbraut inn á Skeiðarvog úr 90 metrum í 180 metra í þeim tilgangi að bæta umferðaröryggi og umferðarflæði á þessum slóðum. Núverandi beygjuakrein hefur verið lokað að hluta vegna þessara framkvæmda.  

Nokkrir ljósastaurar hafa verið teknir niður vegna framkvæmdanna en þeir verða settir upp aftur í lok verks. Þá verður rafmagnsskápur færður og settir upp skynjarar fyrir umferðarljós. 

Búast má við lítilsháttar töfum meðan á framkvæmdum stendur. Mikill umferðarþungi er á þessu svæði og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitssemi. Ljúka á verkinu fyrir lok júlímánaðar.  

Framkvæmdir við Reykjanesbraut-Bústaðaveg á lokametrunum

Þá er vinnu við lengingu vinstribeygju akrein af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg að ljúka. Þar hefur eystri akrein Reykjanesbrautar verið breikkuð og vinstribeygju akreinin lengd úr 110  metrum í 220 metra til þess að bæta umferðaröryggi og -flæði.  

D.Ing verk ehf. annast þessar framkvæmdir fyrir Vegagerðina.